Aldís Mjöll, stúdent í Háskólanum á Akureyri er næsti viðmældandi í samstarfi Kaffið.is og Háskólans á Akureyri þar sem við fáum að kynnast mannlífinu í skólanum. Hægt verður að spjalla við Aldísi um líftækni og aðra stúdenta um allar námsleiðir í HA á Opnum degi á morgun frá klukkan 11:00-13:00 í Hátíðarsal skólans.
Í hvaða námi ert þú í?
Ég er að byrja þriðja árið í B.Sc. í líftæknifræði. Þetta nám er frábær grunnur fyrir nánast allar gerðir vísinda og veitir frábæran undirbúning fyrir störf á rannsóknarstofum að námi loknu. Ég mæli eindregið með þessu námi, sérstaklega ef einstaklingar vilja kynnast mörgum greinum innan STEM heimsins þar sem líftækni er svo víðtækt svið.
Uppáhaldsstaður í HA?
Það verður að vera rannsóknastofurnar á Borgum. Þar fer fram allt verklegt nám og ég vann þar sem rannsakandi síðasta sumar. Tilfinningin sem maður fær við að vera þarna inni er alveg ólýsanleg og spenningurinn alltaf jafn mikill og þegar ég steig þar inn í fyrsta skipti.

Skemmtilegasta minning þín í HA?
Ég á svo margar skemmtilegar minningar að það er erfitt að velja. En minningarnar sem mér þykir mest vænt um gerast í prófatíð. Að fá vinahópinn saman uppi í skóla að læra og hjálpast að, og á kvöldin pöntum við pítsur og höldum áfram að læra. Við höfum lent í því að læra yfir okkur og mögulega langt fram á nótt en þá endum við öll saman í hláturskasti yfir einhverju sem er líklega ekki fyndið fyrir fólki sem er að vinna með eðlilegan svefn. Það eru skemmtilegustu minningarnar mínar.
Hvernig finnst þér háskólalífið á Akureyri?
Háskólalífið er sérlega sterkt á Akureyri. Ég er frá Akranesi og flutti til Akureyrar fyrir þetta nám þar sem það er ekki kennt annars staðar á landinu. Það var liðinn um áratugur síðan ég fór síðast til Akureyrar en ég ákvað samt að pakka saman og flytja. Ég hafði enga hugmynd um við hverju ég átti að búast og það var frekar erfitt til að byrja með að flytja svona langt í burtu frá vinum mínum og fjölskyldu, sérstaklega þar sem ég er smá mömmustelpa, en móttökurnar sem ég fékk frá bæði háskólanum og samfélaginu voru yndislegar.
Hvað er það besta við að vera HA-ingur?
Samfélagið 100%. Skólinn er tiltölulega lítill, sem þýðir að maður kynnist bæði samnemendum og kennurum persónulega. Það skapar svo náið og stuðningsríkt samfélag sem er alls ekki sjálfgefið. Það er staður fyrir alla innan Háskólans á Akureyri og þessi nánd sem myndast er alveg ómetanleg.



COMMENTS