Norðurorka fagnar 25 ára afmæli í ár og í tilefni þess verður opið hús á tveimur stöðum laugardaginn 13. september.
Dagurinn hefst klukkan 13 í hreinsistöð fráveitu í Sandgerðisbót, þar sem formleg opnun stöðvarinnar fer fram.
Hreinsistöðin er eitt stærsta og mikilvægasta verkefni Norðurorku á undanförnum árum, og hefur þegar skilað miklum árangri í umhverfismálum. Stöðin var tekin í notkun haustið 2020, en vegna samkomutakmarkana var vígslu hennar frestað. Nú er loksins komið að því að opna stöðina formlega og bjóða gestum að kynna sér starfsemina.
Frá því stöðin fór í gang hafa yfir 150 tonn af rusli verið síuð úr fráveituvatni, sem annars hefði runnið út í sjó. Þetta er því stórt framfaraskref í þágu umhverfisins – og verkefni sem samfélagið allt getur verið stolt af.
Að opnun lokinni flyst dagskráin yfir á Rangárvelli, þar sem afmælishátíð Norðurorku hefst klukkan 14. Þar verður boðið uppá fróðleg erindi, kaffi og konfekt, lifandi tónlist, hoppukastala og grillaðar pylsur eins og í öllum góðum afmælum. Fjölskyldan ætti því öll að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.
Öll eru hjartanlega velkomin. Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu Norðurorku.


COMMENTS