Fyrirhuguð sameining Háskólans á Akureyri og Háskólans á Bifröst var til umræðu á fundi bæjarráðs Akureyrarbæjar í gær, 11. september. Í fundargerð óskar bæjarráð eftir fundi með menningar- nýsköpunar og háskólaráðherra og rektor Háskólans á Akureyri.
Fullltrúar stúdenta, Aðalbjörn Jóhannsson, Rakel Rún Sigurðardóttir og Jóhannes Már Pétursson, mættu á fundinn. Í fundargerð bæjarráðs segir að mikilvægt sé að „bæjarstjórn, þingheimur og samfélagið taki mark á þeim djúpstæðu áhyggjum sem stúdentar við HA hafa lýst yfir“ vegna hugsanlegrar sameiningar. Ræða þurfi þær áhyggjur á opinberum vettvangi, enda varði framtíð skólans samfélagið allt.
Í fundargerðinni er sérstök áhersla lögð á hugsanlega nafnbreytingu háskólans ef til sameiningar kemur: „Sé það rétt að um sé að ræða ófrávíkjanlega kröfu að verði af sameininingu eigi nýr háskóli að fá nýtt nafn, þá er ekki annað hægt að ætla en að í raun sé verið að leggja niður Háskólann á Akureyri, sem sjálfstæða menntastofnun skv. lögum nr. 85/2008. Það er óásættanlegt. Nafn skólans er ekki aðeins vörumerki sem litlu máli skiptir, heldur staðfesting á því hvar skólinn er staðsettur, því samfélagslega hlutverki sem hann gegnir í nærumhverfinu til lengri tíma sem og að val um staðnám skipti ekki síður máli en sveigjanlegt nám.“
Bæjarráð óskar því eftir fundi með menningar- nýsköpunar og háskólaráðherra og rektor Háskólans á Akureyri.


COMMENTS