Hrós vikunnar – VMA

Hrós vikunnar – VMA

Hvenær fékkst þú síðast hrós? Gastu tekið því með stolti eða gerðir þú lítið úr því? Hvað með að gefa hrós, er langt síðan þú gerðir það? Það að fá hrós eflir sjálfstraust, eykur vellíðan og virkar hvetjandi á fólk. A sama tíma græðir sá sem veitir hrósið þar sem það að hrósa öðrum hefur jákvæð áhrif. Hrós eru því af hinu besta og við megum vera duglegri að beina sjónum að því sem vel gengur.

Í þessari viku langar mig að hrósa Verkmenntaskólanum á Akureyri. Nám hefur mikið verið að breytast og þróast á síðustu árum þar sem fjarnám er að verða sífellt algengara. Það opnar vissulega marga möguleika þar sem búseta skiptir allt í einu ekki máli og nemendur geta stjórnað sjálfir hvenær þeir læra. En eigum við þá að leggja staðnámið niður? Það varð raunin á sjúkraliðabraut í VMA en veturinn 2024-2025 var ekki boðið upp á hana nema í fjarnámi. Núna í haust var hins vegar ákveðið að vera með brautina í staðnámi og fagna ég því mikið. Þó fjarnám hafi sína kosti þá er mikilvægt að muna að það eru margir kostir sem fylgja staðnámi. Til dæmis er mun betra aðgengi að stuðningi, skýrari rútína, bein samskipti við kennara og samnemendur ásamt því að verkleg kennsla verður öflugri. Það sem vegur kannski þyngst er félagslega virknin og tengslanetið sem myndast í skólanum. Ég myndi segja að það sé einstaklega mikilvægt svona á tímum tækninnar. Það er frábært að það sé í boði fjarnám fyrir þá sem búa fjarri eða kjósa að vinna með námi, en takk VMA fyrir að bjóða upp á staðnám fyrir þá sem vilja mæta í skólastofuna.

Ég er ekki með eitt hrós heldur tvö fyrir skólann. Núna er ekki sá tími árs þegar allir eru að útskrifast en á vorin eru gjarnan fréttir um nemendur sem dúxa. Þá fá nemendur verðlaun, oftast fræðibækur, fyrir framúrskarandi námsárangur. Þetta eru í rauninni viðurkenning fyrir nördana. Ég er hins vegar þeirra skoðunar að það eigi að leggja niður þessa hefð. Sjálf er ég með mikla fullkomnunaráráttu og getur hún farið í miklar öfgar þegar ég er í námi. Mér finnst ég þurfa að læra allt upp á tíu. Til að fá tíu í einkunn. En einkunnir segja ekki alla söguna. Snýst nám um að fá góðar einkunnir eða snýst það um að þroskast, vaxa og dafna? Hvað með nemanda sem fær sjö í einkunn en sýndi miklar framfarir? Af hverju fær hann ekki verðlaun? Þegar ég fór til námsráðgjafa í VMA sagði hún mér að skólinn væri hættur með þessi námsverðlaun þannig ég gæti slakað á fullkomnunaráráttunni meðan ég væri í skólanum. Þau eru frekar að veita viðurkenningar fyrir framlag nemenda til félagsstarfs og tel ég það vera mun uppbyggilegra fyrir nemendur. Enda sagði sálfræðingur eitt sinn við mig að hún spyr aldrei börnin sín hvað þau fengu í einkunn úr prófi. Hún spyr frekar hvort þau hafi eignast vini í skólanum. Það ristir líka mun dýpra en tala á blaði.

Nú er ég búin að gefa hrós þessa vikuna. Hvað með þig?

*The more you praise and celebrate your life, the more there is in life to celebrate*  

COMMENTS