Garnsalan hefur opnað nýja verslun á horni Stradgötu og Kaldbaksgötu á Akureyri. Hingað til hefur Garnsalan einungis rekið vefverslun sem opnaði í febrúar 2024.
Aníta Júlíusdóttir segir að verslunin sé sérstaklega áhugaverð vegna einstaks vöruúrvals þar sem áhersla er lögð á sjálfbærni og nýtni.
Frá áhugamáli í atvinnurekstur
Aníta segist í spjalli við Kaffið.is alltaf hafa haft áhuga á allskyns handavinnu, bæði saumaskap og prjóni. Hún ólst upp við mikla handavinnu á sínu heimili, móðir hennar var mikil handavinnukona, prjónaði og saumaði allt á Anítu og 4 systkini, og gott betur.
Aníta segir að handavinna hafi verið hennar uppáhalds fag í grunnskóla, ásamt íþróttum. Hún segir því fylgja mikil ró og notalegheit að setjast niður og prjóna, hvort sem það er í góðra vina hópi eða með góða sögu í spilaranum.
„Þegar árin líða og lífið fer að róast gefst tími fyrir áhugamálin. Það hefur alltaf blundað í mér smá
búðarkona þannig að garnið varð fyrir valinu til að dunda við í frítímanum. Ég hreinlega elska garn,
líður hvergi betur en innan um ull, dokkur og kóna hér í litlu búðinni minni. Ég nýt þess líka að hitta
skemmtilegt fólk sem ég reyni að þjónusta eftir bestu getu,“ segir Aníta.

Garn sem fær nýtt líf
Hugmyndin að versluninni kviknaði í Danmörku þar sem Aníta fann birgja sem sérhæfir sig í
innflutningi á umframframleiðslu á garni frá Ítalíu. Um er að ræða svokallað „overstock garn“ hágæða afgangsgarn úr tískuiðnaðinum á Ítalíu. Í stað þess að þetta vandaða hráefni, oft úr silki,alpakka, merino, mohair, angóru og fleiru sé fargað, er því nú bjargað og komið á markað fyrir
handverksfólk. Þessi sjálfbæra nálgun gerir versluninni kleift að bjóða gæðagarn á betra verði.
Garnið er hægt að fá í stærri einingum en gengur og gerist. Aníta segir að það hafi reynst vinsælt á meðal prjónara þar sem það fækkar endum sem þarf að ganga frá.
Til að þjónusta enn breiðari hóp viðskiptavina ákvað Aníta að bjóða einnig upp á hefðbundið garn í nýju versluninni. Leitin beindist að Ítalíu og þar sem hún þekkti vel til ítalskra framleiðenda úr fyrri verslunarrekstri og treystir á gæði þeirra og litaval. Fyrir valinu varð Adriafil sem er fjölskyldufyrirtæki stofnað árið 1911 og er þekkt um allan heim fyrir hágæða garn, auk þess að leggja ríka áherslu á sjálfbærni í sinni framleiðslu.

Viðtökur fram úr björtustu vonum
Að sögn Anítu hafa viðtökur allt frá byrjun verið framar vonum en hún segist hafa runnið blint í sjóinn með hugmyndina. Árangurinn lét ekki á sér standa. Frá því vefverslunin opnaði fyrir 18 mánuðum hafa verið afgreiddar yfir 200 pantanir, 99 prósent af sölunni hefur farið til viðskiptavina utan Akureyrar.
Hingað til hefur garnið verið keypt án þess viðskiptavinir hafi snert það. Með opnun verslunarinnar geta heimamenn og aðrir loksins kynnt sér úrvalið og fengið að klappa garninu áður en það er keypt. Aníta segist afar þakklát fyrir frábærar móttökur sem nýja verslunin hefur þegar fengið. Auk almennings hafa fatahönnuðir þegar verslað garn hjá henni og sýnt því mikinn áhuga.
„Ég var með allt garnið heima hjá mér sem gekk ekki lengur. Stofan var orðin full af kössum. Það var eiginlega ekki hægt að halda jólin um síðustu áramót, jólaserían fór á garnkassana og núna fyrir
opnun voru kassarnir farnir að flæða fram á gang,“ segir Aníta.
Aníta segir að mikill uppgangur sé í prjónamennsku um þessar mundir og að það sé að einhverju leiti klisja að það sé einungis fyrir eldri konur.
„Handavinna er lífstíll og nær alveg til yngri kynslóða líka. En vissulega eru það eldri konum sem prjóna meira. Ungt fólk með börn hefur bara einfaldlega minni tíma og þá eru það gjarnan ömmurnar sem prjóna á fjölskylduna og vini. Handavinna af ýmsu tagi er vinsæl í dag og hefur verið undanfarin ár. Ég sé ekki lát á því,“ segir Aníta að lokum.
Frekari upplýsingar má finna á www.garnsalan.is


COMMENTS