Flugvél frá breska flugfélaginu easyJet lenti á Akureyrarflugvelli klukkan 09:15 í morgun. Vélin lagði af stað frá Gatwick flugvelli í London klukkan 06:30 að íslenskum tíma. Flugfélagið mun fljúga tvisvar í viku, þriðjudaga og laugardaga, á milli Akureyrar og Gatwick í allan vetur og út apríl. Frá nóvember og út mars mun easyJet einnig fljúga milli Akureyrar og Manchester.
Í tilkynningu frá Markaðsstofu Norðurlands segir að bein flug til Akureyrar séu lykilatriði fyrir ferðamannaiðnað á Norðurlandi. Tilkynninguna í heild sinni má lesa hér að neðan:
Fyrsta vél vetrarins frá breska flugfélaginu easyJet lenti á Akureyri í morgun, eftir rétt tæplega þriggja tíma flug frá Gatwick flugvellinum í London. Þetta er þriðji veturinn sem easyJet flýgur til Norðurlands og tímabilið hefur nú verið lengt um tvo mánuði frá London. Síðasta vetur var tilkynnt um að október og apríl hefði verið bætt við tímabilið, en áfram verður flogið frá nóvember og út mars frá Manchester.
Í haust hefur verið greint frá því að beint flug til Norðurlands hafi verið lykilatriði í því að ferðamenn tóku ákvörðun um að fara í ferðalag um Norðurland.
Niðurstöður könnunar sem gerð var fyrsta veturinn sem easyJet flaug til Akureyrar sýndu að ferðamenn sem komu með flugfélaginu eyddu tæplega hálfum milljarði á ferðalagi sínu um Norðurland. Miðað við sömu forsendur og notaðar voru í skýrslunni má áætla að síðasta vetur, 2024-2025, hafi heildareyðslan verið ríflega 1200 milljónir króna. Aukinn fjöldi ferða gæti því haft þau áhrif að þessar tölur hækki enn frekar nú í vetur.


COMMENTS