Bjartsýni á Norðurlandi

Bjartsýni á Norðurlandi

Sigurjón Þórðarson skrifar

Í nýafstaðinni kjördæmaviku þingmanna átti ég ýmist einn eða ásamt öðrum þingmönnum Norðausturkjördæmis fundi með sveitarstjórnarfólki og fleirum í kjördæminu. Allt uppbyggilegir og góðir fundir.

Hvert sem komið var á Austur- eða Norðurlandi lögðu heimamenn mikila áherslu á samgöngumálin. Það kemur ekki á óvart enda hefur á undanförnum árum hlaðist upp mikil innviðaskuld í uppbyggingu og viðhaldi vega vítt og breitt um landið þannig að vegir liggja undir skemmdum. Sömuleiðis hefur gangagerð legið niðri í hálfan áratug. Á þessum fundum kom fram mikil bjartsýni á að ný ríkisstjórn láti verkin tala og snúi hratt og örugglega við blaðinu. 

Hvati til uppbyggingar innviða sveitarfélaga

Fleiri mál bar á góma til að mynda; starf íþróttahreyfingarinnar, skattlagning skemmtiferðaskipa, skóla- og heilbrigðismál. Á meðal sveitarstjórnarmanna komu fram réttmætar ábendingar og brýningar um að veita sveitarfélögum undanþágu frá greiðslu viðisaukaskatts vegna innviðauppbyggingar.  Það eru fordæmi fyrir því að sveitarfélög hafi fengið tímabundnar undanþágur til innviðauppbyggingar á sviði fráveitumála og síðan varanlegri  vegna búnaðar slökkviliða. Það er skynsamleg nú í kjölfar batnandi afkomu ríkissjóðs að horfa fyrst einmitt til skattalækkana á sveitarfélögin til innviðappbyggingar m.a. á  uppbyggingu og viðhalds veitna og mannvirkja sem sveitarfélögin hafa lögbundnar skyldur  til að reisa og viðhalda.

Á fundi sem haldinn var með stjórnendum Sjúkrahússins á Akureyri (SAK) og öðrum með læknum sjúkrahússins komu fram sjónarmið um hvernig mætti efla starfsemina með það að leiðarljósi að treysta hlutverk SAK sem nauðsynlegs hlekks í almannavörnum landsins og efla það sem annað tveggja sérgreina-sjúkrahúsa landsins. Mikilvægur þáttur í því er að sjálfsögðu að starfskjör heilbrigðisstarfsfólks séu aldrei síðri SAK en þau sem bjóðast annars staðar. Einn lykill að framþróun Akureyrar sem svæðisborgar  hlýtur að vera að styrkja SAK eins og áform eru uppi um m.a með frekari uppbyggingu geðþjónustu og nýbyggingar.

Sigurjón Þórðarson

Þingmaður Norðausturkjördæmisins

COMMENTS