Hallgrímur Jónasson skrifar undir nýjan samning hjá KA

Hallgrímur Jónasson skrifar undir nýjan samning hjá KA

Hallgrímur Jónasson hefur skrifað undir nýjan tveggja ára samning við knattspyrnudeild KA á Akureyri og mun því þjálfa meistaraflokk KA í fótbolta næstu tvö árin hið minnsta. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef KA í dag þar sem segir að spennandi tímar séu framundan hjá félaginu sem tryggði sér á dögunum áframhaldandi veru í deild þeirra bestu.

„Það eru spennandi tímar framundan hjá okkur KA-mönnum en ljóst er að breytingar verða á liðinu okkar og treystum við Hadda fullkomlega til að leiða félagið í þeirri vegferð. Hann hefur skipað lykilhlutverk í þeirri miklu uppbyggingu sem hefur átt sér stað innan félagsins undanfarin ár og hlökkum við svo sannarlega til að halda þessu góða starfi áfram með Hadda í brúnni,“ segir í tilkynningu KA.

Haddi gekk í raðir KA sem leikmaður fyrir sumarið 2018. Þá hafði hann leikið sem atvinnumaður frá árinu 2009 með liðunum GAIS, SønderjyskE, OB og Lyngby BK auk þess lék hann 16 A-landsleiki fyrir Íslands hönd og gerði í þeim þrjú mörk.

Hann tók við sem aðstoðarþjálfari hjá KA árið 2020, fyrst með Óla Stefáni Flóventssyni og síðar með Arnari Grétarssyni. Haddi neyddist til að leggja skóna á hilluna fyrr en ætlunin var eftir erfið meiðsli sumarið 2020 en í framhaldi af því hefur hann lagt sig allan við þjálfunina og sótt helstu gráður á vegum UEFA. Undir lok sumarsins 2022 tók Haddi loks við sem aðalþjálfari KA og tryggði félaginu sæti í Sambandsdeild UEFA er KA endaði í 2. sæti efstudeildar.

Á vef KA má lesa nánar um feril Hadda hjá KA hingað til.

COMMENTS