Háskólinn á Akureyri hlýtur viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar

Háskólinn á Akureyri hlýtur viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar

Jafnvægisvogin, hreyfiaflsverkefni Félags kvenna í atvinnulífinu (FKA), hélt í gær sína árlegu viðurkenningarathöfn en athöfnin var fyrst haldin árið 2019. Í ár er fjöldi viðurkenningarhafa alls 128 en það eru þeir þátttakendur sem náð hafa markmiði verkefnisins um jöfn kynjahlutföll í framkvæmdastjórn / efsta lagi stjórnunar.

Jafnvægisvogin veitti viðurkenningar til níutíu fyrirtækja, tuttugu og tveggja opinberra aðila og sextán sveitarfélaga úr hópi þeirra 253 þátttakenda sem hafa undirritað viljayfirlýsingu. Háskólinn á Akureyri var á meðal þeirra fyrirtækja sem hlutu viðurkenningu og Elín Díanna Gunnarsdóttir, aðstoðarrektor HA tók við viðurkenningunni fyrir hönd háskólans.

„Jafnrétti er háskólanum mikilvægt og mikil vinna er lögð í að taka ákvarðanir sem stuðla að því innan stofnunarinnar. Hjá okkur starfar öflugt teymi Gæða- og mannauðsmála sem aðstoðar við að framfylgja ákvörðunum þar að lútandi. Þá er við háskólann Jafnréttisráð og í fyrra var samþykkt uppfærð jafnréttisáætlun með mikilvægum vörðum og aðgerðum. Hana má sjá á heimasíðunni unak.is,“ skrifaði Áslaug Ásgeirsdóttir, rektor Háskólans á Akureyri, á Facebook í kjölfar viðurkenningarinnar.

Nánari umfjöllun um Jafnvægisvog FKA má nálgast á vef Háskólans með því að smella hér.

Frekari upplýsingar um FKA og Jafnvægisvogina má finna hér

COMMENTS