Skiløb á Norðausturlandi

Skiløb á Norðausturlandi

Hildur María Hólmarsdóttir skrifar

„Hvorfor skiløb på Island ikke er stukket af som destination blandt danskere, kan man jo undre sig over.”
Já, Danirnir furða sig á því hvers vegna Ísland sé ekki orðinn einn helsti áfangastaður þeirra til þess að fara á skíði. Í tvöfaldri opnu sérstaks ferðablaðs Politiken síðastliðinn sunnudag er fjallað um þá skíðaparadís sem að Norðausturland hefur upp á að bjóða. Blaðamenn Politken fara í þyrluskíðarferð í Skíðadal og bera því góða söguna. Útsýnið yfir Tröllaskaga var framandi og stórfenglegt. „Virtustu og hæst staðsettu skíðasvæði Evrópu ættu að vera afbrýðissöm“ segir höfundur greinarinnar og vísar í snjómagn og fjölda snjódaga á Akureyri. Álíka ferð og blaðamenn fara í þessari grein er alls ekki á allra færi. En hinsvegar þekkja blaðamenn sína lesendur og ég get lofað því að margir lesendur Politiken er fólk sem skilur vel eftir sig á þeim svæðum sem það heimsækir. Greinahöfundur viðurkennir að á Íslandi sé vissulega ekki að finna Coca-Cola stóla, schnitzel né fulla menntaskólanemendur líkt og í Ölpunum. Ósnertu fjallshlíðarnar svo langt sem augað eygir er hins vegar það sem ætti að laða fólk að.

Greinin er kostuð af Icelandair og Arctic Heli Skiing, en höfundar undirstrika auðvitað að það hafi ekki áhrif á efnistök greinarinnar. Það gleður mig að sjá Icelandair styðja við það sviðsljósinu sé beint frá höfuðborgarsvæðinu. Í greinninni er því útlistað hvernig best sé að koma sér fra Kaupmannahöfn til Akureyrar. Þar er tekið fram að það taki 7 klukkustundir „með millilendingu í Reykjavík“.

Það er þó auðvitað ekki rétt. Millilendingin er í Keflavík. Af áralangri reynslu lítur ferðin þín nokkurn veginn svona út:

Eftir að hafa komið með morgunflugi frá Köben lendiru í Keflavík. Þar þarftu að bíða eftir töskunum þínum og finna síðan flugrútuna sem er þinn eini raunhæfi möguleiki að komast til Reykjavíkur (málin flækjast þó ef þú ert með ungabarn með þér en látum það liggja). Því næst bíður þú þangað til að rútan fyllist áður en hægt er að leggja af stað og þakkar guði fyrir að hafa valið seinnipartsflugið því fyrri fluginu hefðiru misst af. Þegar á BSÍ er komið þarftu núna að drepa tímann og geymir þar farangurinn þinn í nokkra klukkutíma fyrir marga þúsundkalla. Þegar loks er komið að innanlandsfluginu þarftu að taka leigubíl á Reykjavíkurflugvöll (samt ekki ef þú ert með ungabarn því hvað með bíls… æ ég skal hætta). Rúmum hálftíma í háloftunum síðar ertu mætt til Akureyrar og aðilar frá skíðaskálanum sækja þig – eða ef þú ert heppin eins og ég, mamma og pabbi. Nokkrum dögum síðar gerirðu allt ofantalið í öfugri röð.

Glöggir taka þó kannski eftir forsíðufrétt blaðsins þann sama dag, og í ljósi hennar vil ég taka fram að þyrluskíðaferðir eru kannski ekki akkúrat ferðamennskan sem heimurinn þarf á að halda í dag. Við búum við loftslagsveruleika þar sem að það eru líklega fáir áratugir eftir í þessu sporti! Það er efni í aðra langloku en punkturinn minn hér er þó sá að það er mikil þörf á því að dreifa ferðamennskunni betur á Íslandi, þvert á landshluta og árstíðir. Þessi grein í Politiken er líkleg til þess að opna augu margra skíðaelskandi Dana fyrir töfrum Akureyrar og nágrennis – og afleiðing þess væri vonandi aukið þjónustustig fyrir slíka gesti, til dæmis beint flug til Akureyrar.

Við brottfluttir Norðlendingar myndum allavega fagna því.

COMMENTS