Kroppurinn sem við eigum er algjört kraftaverk. Hann heldur okkur á lífi og gerir okkur kleift að njóta þess að lifa. Jörðin, og náttúra hennar, er sömuleiðis algjört undur. Hún gefur okkur heimili til að búa á meðan við lifum. En alveg eins og við fáum bara einn líkama, þá fáum við einungis eina jörð. Þess vegna skiptir miklu máli að hugsa vel um hana.
Það er ekkert leyndarmál að vandamálin eru mörg innan umhverfismála. Þau geta virst yfirþyrmandi og auðvelt er að hugsa að maður geti lítið gert. En það er margt sem við getum gert. Margt smátt gerir eitt stórt. Ef milljónir manns breyta nokkrum hlutum í sínu daglega lífi hefur það mikil áhrif. Neysla er dæmi um eitthvað sem margir mættu endurskoða og finnst mér tilvalið að staldra aðeins við hana þar sem það styttist í neyslumesta tíma ársins.
Ef saga jarðarinnar er borin saman við eitt ár, þá hefur maðurinn verið til í 37 mínútur og höfum við notað þriðjung af auðlindum jarðar á 0,2 sekúndum. Þetta eru skuggalegar tölur og sýna svart á hvítu að við erum ekki að lifa á sjálfbæran hátt. Peningar leika hér stórt hlutverk þar sem allt virðist snúast um að selja meira og græða meira. Það er hins vegar ljóst að við verðum að breyta lifnaðarháttum okkar og venjum ef við viljum ekki klára auðlindir jarðar á næstu árum.
Við kaupum fimmfalt meira af fötum en við gerðum á níunda áratugnum. Að meðaltali inniheldur heimili í Bandaríkjunum 300.000 hluti. Stór hluti fólks eyðir pening sem hann á ekki og endar í skuldasúpu. Þriðjungur af öllum mat endar í ruslinu á sama tíma og fólk deyr úr hungri. Ef allir myndu lifa eins og meðal Bandaríkjamaður myndu við þurfa fimm jarðir. En eins og ég sagði í upphafi þá höfum við bara eina og því er áríðandi að gera breytingar.
Eitt af því sem þú getur gert er að gefa umhverfisvænar gjafir þessi jól. Það er að segja, grænar og vænar gjafir sem valda ekki gríðarlegri mengun. Að auki er sniðugt að pakka gjöfinni inn á umhverfisvænan hátt með því að nota dagblöð eða margnota taupoka sem þú getur endurnýtt. Hér eru nokkrar hugmyndir fyrir þig sem vilt gefa ástvinum þínum en á sama tíma huga að heilsu jarðarinnar.
– Gjafabréf í böð, bíó, leikhús, klifur, bogfimi, pílu, út að borða eða á kaffihús
– Gjafabréf í mataráskrift, s.s. Eldum rétt, Finca fresh eða Food coop
– Gjafabréf í afþreyingaráskrift, s.s. Storytel, Spotify, Netflix
– Gjafabréf í umhverfisvænar verslanir, s.s. Vistvæna eða fataloppur
– Gefa tíma, s.s. matarboð, nudd, kennsla eða einhvers konar aðstoð
– Ætar sælkeravörur, s.s. sultur, sósur, kaffi, súkkulaði eða áfengi
– Notaðir hlutir af nytjamarkaði, s.s. bækur, húsbúnaður eða skraut
– Gefa gróðursetningu á tré, s.s. Forest friends
Og eflaust er margt meira hægt að gera en þetta getur komið einhverjum af stað. Það er dýrmætt að gefa þeim sem manni þykir vænt um en á sama tíma viljum við ekki ýta undir óþarfa neyslu. Það er ekkert sorglegra en dót sem endar inni í skáp og er aldrei notað. Við viljum gefa gjöf sem verður nýtt en sömuleiðis að hún sé unnin á umhverfisvænan hátt. Umhverfisvænt og grænt í ár, er það ekki málið?*The best gifts come from the heart, not the store*


COMMENTS