Handboltalið KA/Þór hefur byrjað tímabilið af miklum krafti sem nýliðar í Olís-deild kvenna. Liðið er í öðru sæti Olís-deildarinnar eftir fyrstu sex leiki vetrarins, tveimur stigum á eftir toppliði Vals. Jónatan Magnússon, þjálfari liðsins, segir aðdáunarvert hversu mikið liðið hefur lagt á sig frá því þær sigruðu Grill66 deildina á síðasta tímabili og tryggðu sér aftur sæti í deild þeirra bestu. Hann hvetur Akureyringa til þess að mæta á leiki liðsins og taka þátt í gleðinni og stemningunni sem skapast hefur í kringum liðið.
„Stemningin í hópnum er mjög góð, er með í höndunum frábærar stelpur sem eru að leggja gríðarlega mikið á sig og æfa mjög vel. Fjölbreyttur hópur af bæði mjög ungum leikmönnum en einnig eldri og það er í raun aðáunarvert að sjá hversu mikið þær hafa lagt á sig síðan í sumar. Við eðli máli samkvæmt erum að eyða miklum tíma saman, spilum annan hvern leik i Reykjavík, mikið um æfingar og fundi og það myndi aldrei ganga upp nema að hópurinn sé vel samstillur,“ segir Jónatan í spjalli við Kaffið.is.
Jónatan tók við liðinu fyrir síðasta tímabil og undir hans stjórn unnu stelpurnar Grill66 deildina sannfærandi og fóru taplausar í gegnum deildarkeppnina. Liðið hefur svo sýnt í byrjun núverandi tímabils að það á fullt erindi í efstu deild. Jónatan segir að byrjun liðsins hafi komið honum að einhverju leyti á óvart.
„Ég verð að viðurkenna að ég gerði mér ekki alveg grein fyrir hvar við stæðum gagnvart öðrum liðum í deildinni þar sem við við vorum að koma upp í Olís aftur. Engu að síður þá er ég ánægður með hópinn og hef gríðarlega mikla trú á þessum stelpum sem ég er núna búinn að vera vinna með síðan í fyrra. Við eigum ennþá mikið inni. Það hefur ekki allt verið frábært hjá okkur en við stefnum að því að verða enn betri og getum ennþá bætt okkar leik.“
Liðið er eins og fyrr segir í öðru sæti deildarinnar eftir fyrstu sex leikina en Jónatan bendir á að það sé mikið eftir af mótinu.
„Mikið getur enn gerst en akkúrat núna þá eru stelpurnar að njóta þess að spila og ég vonast eftir því að það haldi áfram og þá er aldrei að vita nema eitthvað gott gerist. Varðandi toppbaráttu eða sætaskiptan þá er klassíska svarið alltaf best, einn leikur í einu og svo sjáum við til í vor.“
„Við settum okkur skýr markmið fyrir mót sem við höfum kosið að halda að einhverju leiti útaf fyrir okkur sjálf, en eitt af okkar markmiðum var einmitt að spila þannig handbolta að það sé þess virði að horfa á okkur, með baráttu og leikgleði. Hingað til hefur það gengið vel, stelpurnar eru að njóta þess að spila og við erum alltaf að vonast eftir þvi að fleiri og fleiri Akureyringar fatti að það sé drullu gaman að horfa á okkur,“ segir Jónatan.
Á morgun hefst keppni í Powerade-bikarnum. KA fær þá lið Selfoss í heimsókn en það er eini leikurinn í 16-liða úrslitum keppninnar þar sem tvö úrvalsdeildarlið mætast. Jónatan segir að hvað sem er gæti gerst á morgun og að KA/Þór þurfi algjöran toppleik til þess að komast áfram.
„Mér finnst ansi líklegt að leikurinn ráðist á síðustu mínútnum. Við erum klárar í það og hlökkum til. Selfoss er með hörkulið, fóru í úrslitakeppnina í fyrra. Þrátt fyrir að þær hafi ekki verið að hala inn stigum í upphafi móts þá hafa þær í sínum röðum gríðarlega góða leikmenn og við þurfum algjöran toppleik til þess að komast áfram.“
Jónatan segir að KA/Þór séu með skýr markmið um að komast í undanúrslit í bikarkeppninni, „Final Four“-bikarhelgin eins og hún kallast. Hann segir það vera skemmtilegustu helgi ársins fyrir handboltafólk og að KA/Þór ætli sér að taka þátt.
„Með sigri á morgun þá færumst við einu skrefi lengra að því markmiði. Bikarleikir eru sérstakir þar sem það er bara annað hvort ertu kominn áfram eða hreinlega bara búinn, svo við munum berjast á morgun og vonandi skilar það sér í sigri.“
Hann hvetur Akureyringa til þess að mæta á morgun og styðja stelpurnar og taka þátt í gleðinni og stemningunni sem hefur einkennt liðið í upphafi veturs.
„Ég vonast innilega til þess að okkar fólk Akureyringar sýni stelpunum stuðning í verki og mæti á morgun. Troðfullt hús gerir ekki bara leikinn skemmtilegri fyrir stelpurnar okkar heldur þá aukast líkurnar á sigri töluvert því orkan sem myndast frá okkar frábæru stuðningsmönnum er engu lík og er í heimsklassa. Það vita allir, bæði okkar leikmenn og líka andstæðingarnir,“ segir Jónatan að lokum.
Leikur KA/Þór og Selfoss hefst klukkan 18:30 í KA-heimilinu á morgun. Sérstök tilboð eru á hamborgurum fyrir leik og allir miðar gilda einnig sem happdrættismiðar fyrir Bikarleikjalottó KA.


COMMENTS