KA/Þór áfram í bikarnum

KA/Þór áfram í bikarnum

Handboltalið KA/Þór hóf leik í Poweradebikarnum í gær þegar liðið tók á móti Selfoss í KA-heimilinu. KA/Þór vann öruggan 32-26 sigur og er komið áfram í 8-liða úrslit bikarkeppninnar.

Sigurinn var aldrei í hættu en KA/Þór voru með yfirhöndina mest allan leikinn og leiddu mest með ellefu mörkum.

Bergrós Ásta Guðmundsdóttir var markahæst í liði KA/Þór með sjö mörk, Anna Þyrí Halldórsdóttir skoraði 5 og þær Sólveig Lára Kristjánsdóttir og Tinna Valgerður Gísladóttir gerðu fjögur mörk hver. Matea Lonac átti stórleik í marki KA/Þór og varði 14 skot.

Jónatan Magnússon, þjálfari liðsins, sagði í viðtali við Kaffið.is fyrir leik að eitt af markmiðum vetrarins hjá liðinu væri að komast í undanúrslit Poweradebikarsins og taka þátt í „Final Four-helginni“ þar sem liðin í undanúrslitum mætast í úrslitakeppni. Nú er liðið einu skrefi nær því markmiði.

Sjá einnig: „Orkan sem myndast frá okkar frábæru stuðningsmönnum er engu lík og er í heimsklassa“

Mörk KA/Þórs: Bergrós Ásta Guðmundsdóttir 7, Anna Þyrí Halldórsdóttir 5, Sólveig Lára Kristjánsdóttir 4, Tinna Valgerður Gísladóttir 4, Susanne Denise Pettersen 3, Lydía Gunnþórsdóttir 3/2, Kristín A Jóhannsdóttir 2, Unnur Ómarsdóttir 2, Anna Petrovics 1, Trude Blestrud Hakonsen 1.
Varin skot: Matea Lonac 14, 43,8% – Bernadett Leiner 1, 11,1%.

COMMENTS