Á sunnudaginn, 2. nóvember, verður haldinn styrktarviðburður í Vitann, Strandgata 53 á Akureyri, undir yfirskriftinni „Hreyfing til góðs“. Viðburðurinn fer fram mill kl. 14:00 og 16:00 og markmiðið er að safna fé til áframhaldandi þróunar Hjaltastaða – samfélagslegs verkefnis sem hefur það að markmiði að skapa von, öryggi og tækifæri fyrir ungt fólk sem hefur átt erfitt með að finna sinn stað í samfélaginu.
Hjaltastaðir eru þróunarverkefni sem unnið er í minningu Hjalta Snæs Árnasonar, sem lést í mars síðastliðnum þegar hann gekk í sjóinn við Kirkjusand. Hjalti Snær var ungur maður með stórt hjarta og næma sál sem átti þó erfitt með að fóta sig í samfélaginu. Verkefnið sprettur af þeirri djúpu þörf að skapa úrræði fyrir fólk eins og hann – þar sem einstaklingar sem finna sig ekki í hefðbundnum kerfum fá tækifæri til að styrkja sig, öðlast sjálfstæði og finna til samstöðu.
Markmið Hjaltastaða er að byggja upp stað þar sem fólk 18 ára og eldra, sem stendur höllum fæti, getur unnið í sjálfum sér, tekið skref í átt að sjálfstæðu lífi og öðlast betri grundvöll fyrir framtíðina. Þar verður lögð áhersla á hlýju, virðingu og umhyggju – að skapa umhverfi sem gefur rými til vaxtar, bata og raunverulegra tækifæra.
Viðburðurinn Hreyfing til góðs býður fólki upp á að sameina hreyfingu, slökun og samveru í þágu góðs málefnis. Það kostar litlar 3.000 krónur inn, og á staðnum verður bæði happadrætti og myndakassi þar sem gestir geta fangað augnablikið og tekið gleðina með sér heim. Allur ágóði rennur óskertur til þróunar Hjaltastaða.
„Þetta er ekki aðeins fjáröflun,“ segja skipuleggjendur. „Þetta er samstöðuviðburður, kærleikskveðja til Hjalta Snæs og allra þeirra sem finna sig ekki í samfélaginu okkar. Við vonumst til að fylla Vitann á sunnudaginn og með sameiginlegu átaki hjálpa verkefninu að komast lengra. Hjaltastaðir eru vonarverkefni – staður til að byggja sig upp.“
Til þess að halda áfram þessu mikilvæga þróunarstarfi þarf Hjaltastaðir stuðning samfélagsins. Með þátttöku í viðburðinum Hreyfing til góðs geta gestir lagt sitt af mörkum til að skapa framtíðarúrræði sem byggir á umhyggju, skilningi og raunverulegum tækifærum fyrir þá sem standa höllum fæti.
Viðburðurinn fer fram í Vitann, Strandgata 53 á Akureyri, sunnudaginn 2. nóvember kl. 14:00–16:00. Allir eru hjartanlega velkomnir að taka þátt, hreyfa sig, eiga góða stund og styrkja Hjaltastaði – stað til að byggja sig upp.
Fyrir þá sem komast ekki á viðburðinn en vilja leggja sitt af mörkum á annan hátt, er hægt að styrkja verkefnið beint:
Sími: 0566-05-400111
Kt.: 690684-1369
Hægt er að fylgja verkefninu á Facebook-síðu Hjaltastaða til að fá nýjustu fréttir og upplýsingar.
Um Hjaltastaði
Hjaltastaðir eru þróunarverkefni sem miðar að því að skapa úrræði fyrir ungt fólk sem stendur höllum fæti í samfélaginu. Þar verður boðið upp á öruggt og hlýlegt umhverfi þar sem einstaklingar geta unnið í sjálfum sér, öðlast sjálfstæði og fundið tilgang í daglegu lífi. Verkefnið byggir á samfélagslegri ábyrgð, valdeflingu og manngæsku, með áherslu á samstöðu og virðingu.
Hjaltastaðir eru unnir í minningu Hjalta Snæs Árnasonar og eru tákn um von, kærleika og ný tækifæri.


COMMENTS