Mennta- og barnamálaráðuneytið hefur veitt 474 milljónum króna til sveitarfélaga í þágu farsældar barna með áherslu á að sporna við þróun í átt að auknu ofbeldi meðal barna. Styrkirnir eru liður í aðgerðum stjórnvalda vegna ofbeldis meðal barna og gegn börnum.
Akureyri hlaut styrk fyrir verkefnið Fjölskylduþjónusta Norðurlands eystra. Verkefnið miðar að því að efla farsæld barna og fjölskyldna með snemmtækri, samþættri og fjölskyldumiðaðri þjónustu sem byggir á norskri fyrirmynd. Úrræðið er tímabundið stuðningskerfi sem tekur á fjölbreyttum áskorunum í lífi barna og felur m.a. í sér barnasmiðjur, fjölskyldumeðferð og eftirfylgni í allt að 12 mánuði.
Meðal annarra verkefna sem hlutu styrk var verkefnið FORNOR sem leitt er af Skagaströnd í samstarfi við sveitarfélög á Norðurlandi vestra. FORNOR er verkefni sem snýr að því að innleiða sameiginlega forvarnaráætlun á svæðinu.
„Það er ánægjulegt að sjá þessa miklu fjölbreytni í verkefnum sem undirstrikar vilja sveitarfélaga til þess að láta gott af sér leiða þegar kemur að farsæld barna og viðbrögðum við ofbeldi gegn börnum. Ég hlakka til að fylgjast með framvindu verkefnanna og óska styrkþegum velfarnaðar í sínum störfum,“ segir Guðmundur Ingi Kristinsson, mennta og barnamálaráðherra.


COMMENTS