Þorsteinn Már Baldvinsson, stofnandi og forstjóri Samherja til ríflega fjörutíu ára, hlaut heiðursverðlaun Þjóðmála þegar þau voru veitt þriðja sinni við hátíðlega athöfn á Hátíðarkvöldi Þjóðmála 20. nóvember síðastliðinn. Þetta kemur fram í tilkynningu Þjóðmála á samfélagsmiðlum.
Þar segir að verðlaunin séu veitt honum fyrir ævilangt framlag til uppbyggingar íslensks atvinnulífs og fyrir að hafa verið leiðandi í því að koma íslenskum sjávarútvegi í fremstu röð á alþjóðavettvangi.
„Samherji hefur leitt þá verðmætasköpun sem orðið hefur til í íslenskum sjávarútvegi og rutt brautina með nýsköpun sem tryggt hefur sífellt meiri nýtingu þess afla sem dreginn er að landi. Auk þess hefur Samherji, undir stjórn Þorsteins Más og öflugs stjórnendateymis, fjárfest verulega í nærsamfélagi Eyjafjarðar – sem hefur ekki aðeins skapað verðmæti fyrir félagið heldur samfélagið allt. Samhliða þessu hefur Þorsteinn Már verið virkur í fjárfestingum í öðrum atvinnugreinum og þannig tekið þátt í íslensku atvinnulífi með margvíslegum hætti,“ segir í tilkynningu Þjóðmála.
Sjá einnig: Stofnendur Skógarbaðanna valin „Kaupmaður ársins“
Viðburðurinn fór fram á Hvalasafninu á Granda þar sem um 280 gestir fylgdust meðal annars með því þegar Þorsteini Má var afhent málverk sem málað var af listmálaranum Sigurði Sævari Magnúsarsyni.


COMMENTS