„Ég veit að hann er með mér í þessari baráttu“

„Ég veit að hann er með mér í þessari baráttu“

Gerður Ósk Hjaltadóttir var kosin Manneskja ársins 2025 af lesendum Kaffið.is. Gerður hefur barist fyrir réttindum ungmenna sem eiga erfitt með að fóta sig í samfélaginu á árinu í kjölfar andláts elsta sonar síns, Hjalta Snæs Árnasonar.

Hjalti Snær Árnason var tuttugu og tveggja ára þegar hann hvarf í Reykjavík í mars síðastliðnum. Hann var þá vistaður á Laugarásnum í Reykjavík, sérhæfðri deild á vegum Landspítalans, fyrir ungt fólk með gerðrofssjúkdóm á byrjunarstigi.

Hann greindist ungur á einhverfurófi og átti erfitt með að fóta sig félagslega. Í tvö ár áður en hann hvarf hafði hann glímt við erfið geðræn veikindi. Gerður segir að það hafi vantað úrræði fyrir hann á Akureyri þegar veikindin versnuðu.

Í maí síðastliðnum, á 23 ára afmælisdegi Hjalta, efndi Gerður til söfnunar með það að markmiði að hjálpa öðrum fjölskyldum í sömu sporum. Þróunarverkefnið Hjaltastaðir varð svo til og hafa verið haldnir fleiri styrktarviðburðir á árinu til þess að byggja upp verkefnið sem verður úrræði fyrir „Gleymdu börnin“ á Norðurlandi.

Gerður segir í samtali við Kaffið.is að hún sé full þakklætis og meyr yfir því að hafa hlotið viðurkenningu sem Manneskja ársins 2025 og að það muni hvetja hana áfram í sinni baráttu.

„Þetta sýnir mér að Akureyringar og nærsveitungar er umhugað um krakkana sem hér búa. Það veitir mér styrk og æðislegt að fá slíka stuðning yfir því sem maður er að reyna gera. Þetta hvetur mig til þess að halda áfram þessari baráttu að byggja upp Hjaltastaði,“ segir Gerður.

Árið 2025 hefur verið hræðilegt fyrir Gerði og fjölskyldu og hún segir að þau séu enn að reyna átta sig á missinum.

„Þetta er búið að vera mjög hræðilegt ár bara. Sú tilhugsun að fara inn í nýtt ár án Hjalta er svo jafnvel enn hræðilegri. Þetta er búið að vera mjög erfitt og strembið og ég get voða lítið annað sagt. Það er þó einnig búið að vera fullt af fallegum hlutum og gleðilegum í þessum harmleik og við höfum reynt að njóta stundarinnar með hinum börnunum og fólkinu okkar.“

Hún segir að á nýju áru muni vinnan við að byggja upp Hjaltastaði halda áfram. Verkefnið hafi meðal annars fengið styrk frá Norðurorku sem muni nýtast í að byggja upp Hjaltastaði, búa til heimasíðu og finna gott fólk í stjórn.

„Við ætlum núna að reyna að vinda þessu í framkvæmd, halda fleiri styrktarviðburði og láta þetta verða að veruleika. Vonandi finnum við eitthvað gott fólk til þess að hjálpa okkur í þessari baráttu.“

Hún segir að verkefni hafi veitt henni rosalega mikinn tilgang. „Að finna að þetta endar ekki bara með Hjalta, að við reynum að halda honum á lofti með þessu og ég veit að hann er með mér í þessari baráttu. Að reyna að búa til eitthvað úrræði fyrir krakkana okkar sem passa ekki alveg inn í boxið. Á meðan samfélagið er ennþá það lokað fyrir að veita þeim góð tækifæri í lífinu.“

„Ég vill þakka innilega fyrir mig og mér finnst alveg dásamlegt að sjá stuðninginn. Þegar allt virðist vera svart þá er samt eitthvað ljós þarna úti. Takk innilega,“ segir Gerður að lokum.

Styrktarreikningur Hjaltastaða:
0566-05-400111
690684-1369

COMMENTS