Árið 2025 var ár mikilla framkvæmda og framfara á Akureyri, að sögn Ásthildar Sturludóttur, bæjarstjóra, sem fór yfir liðið ár í áramótakveðju sinni á vef bæjarins, Akureyri.is.
Hún segir að uppbygging hafi verið áberandi víða um bæinn, þar sem Haga-, Holta- og Móahverfi hafi tekið sífellt skýrari mynd. Jafnframt hafi nýjar hótelbyggingar risið í miðbænum og framkvæmdir verið miklar á svæðum íþróttafélaganna KA og Þórs. Þá hafi Torfunefsbryggja verið tekin í notkun á árinu og spennandi uppbygging fram undan á því svæði, að hennar sögn.
Ásthildur segir skipulagsmál hafa verið í forgrunni hjá bænum og áhersla lögð á íbúalýðræði með opnum kynningarfundum og hverfafundum í grunnskólum bæjarins, auk íbúafunda í Grímsey og Hrísey.
Hún bendir á að ný rannsókn hafi sýnt jákvæð áhrif gjaldfrjáls sex tíma leikskóla og skráningardaga á velferð barna. Þá nefnir hún að fyrsta skóflustunga hafi verið tekin að nýjum leikskóla í Hagahverfi og að leikskólinn Iðavöllur hafi hlotið tilnefningu til Íslensku menntaverðlaunanna.
Á sviði velferðarmála segir Ásthildur að samkomulag hafi verið undirritað um byggingu nýs hjúkrunarheimilis í Holtahverfi, sem upphaflega hafi átt að vera 80 rými en verði 140 rými. Hún segir það stóran áfanga fyrir bæinn.
Einn af hápunktum ársins hafi verið samþykkt Alþingis á borgarstefnu þar sem Akureyri er skilgreind sem svæðisborg. Ásthildur segir mikilvægt að fylgja þeirri stefnu eftir með raunhæfum aðgerðum svo hún verði ekki aðeins orð á blaði.
Hún segir einnig að samfélagið á Akureyri einkennist af miklum krafti og að Norðausturland hafi vakið aukinn áhuga ferðafólks, meðal annars vegna beins millilandaflugs um Akureyrarflugvöll.
Að lokum segir Ásthildur rekstur sveitarfélagsins hafa gengið vel og að fjárhagsáætlun geri ráð fyrir jákvæðri afkomu á næstu árum. Hún þakkar íbúum fyrir stuðninginn á árinu og óskar Akureyringum gleðilegra jóla, árs og friðar.
Áramótakveðju Ásthildar má lesa í heild á Akureyri.is með því að smella hér.


COMMENTS