Þegar árið líður undir lok viljum við hjá Kaffið.is staldra við og þakka ykkur innilega fyrir samfylgdina á árinu sem er að líða. Lestur ykkar, viðbrögð og stuðningur skipta okkur gríðarlega miklu máli og án ykkar væri þetta verkefni ómögulegt. Við erum afar þakklát fyrir að þið hafið gefið ykkur tíma til að fylgjast með því sem er að gerast í nærumhverfinu með því að lesa Kaffið.is.
Árið 2025 var viðburðaríkt og skemmtilegt hjá okkur. Árni og Hreiðar frá Gonzo.Creation gengu til liðs við Kaffið.is og hafa sett sinn svip á miðilinn með frábæru og skemmtilegu myndbandsefni fyrir KaffiðTV sem við vitum að mörg hafa notið. Þá bættist María Hjelm í hópinn sem nýr fréttaritari og hefur hún styrkt ritstjórnina með vönduðum og áhugaverðum fréttum úr mannlífinu og menningunni í bænum.
Það er ekki alltaf auðvelt að halda úti sjálfstæðum fréttamiðli á landsbyggðinni. Verkefnið krefst mikillar vinnu, elju og trúar á mikilvægi staðbundinnar fjölmiðlunar. Árið 2026 fagnar Kaffið.is tíu ára afmæli. Miðillinn hefur að mestu leyti verið rekinn með sjálfboðavinnu á þessum tíma og því erum við afar þakklát fyrir allan stuðning og minnum á að lesendur geta styrkt starfsemina hér.
Allur stuðningur ykkar — hvort sem hann birtist í lestri, styrkjum, ábendingum eða hvatningarorðum — er okkur ómetanlegur.
Við horfum björtum augum til nýs árs, full af þakklæti og metnaði til að halda áfram að flytja fréttir frá nærsamfélaginu okkar. Það eru spennandi tímar framundan á nýju ári og margt skemmtilegt í bígerð sem við hlökkum til að deila með ykkur.
Gleðilegt nýtt ár!


COMMENTS