Samherji eignast tæplega helmingshlut í Berg LipidTech AS 

Samherji eignast tæplega helmingshlut í Berg LipidTech AS 

Samherji hefur gengið frá kaupum á 49 prósent eignarhlut í norska framleiðslufyrirtækinu Berg LipidTech AS í Álasundi. Félagið framleiðir lýsi fyrir heildsölumarkað, einkum úr þorskalifur og laxi, og selur afurðir sínar um allan heim. Kaupin skapa tækifæri til frekari fullvinnslu aukaafurða Samherja samhliða því að efla samkeppnishæfni Berg LipidTech í gegnum stöðugra framboð á gæðahráefni.

Kaupsamningurinn hefur þegar verið undirritaður og eru kaupin fullfrágengin. Samhliða kaupum á 49% hlut í Berg LipidTech eignast Samherji kauprétt að eftirstandandi hlutafé félagsins.

Baldvin Þorsteinsson, forstjóri Samherja, segir að fjárfestingin í Berg LipidTech AS falli vel að starfsemi Samherja.

„Við sjáum mikil tækifæri í þessari fjárfestingu. Það hefur verið stefna Samherja að hámarka verðmætasköpun úr því hráefni sem fellur til í okkar rekstri. Við sjáum fyrir okkur að þessi fjárfesting muni styðja við þá vegferð enda er aukin alþjóðleg eftirspurn eftir afurðum úr fiskiolíum með háu Omega-3 innihaldi. Við teljum að Berg LipidTech hafi svigrúm til umtalsverðs vaxtar enda býr félagið að tæknivæddri aðstöðu til framleiðslu og reyndu og hæfileikaríku starfsfólki sem við hlökkum til samstarfs við,“ segir Baldvin.

Sjá nánar: Samherji hf.

COMMENTS