Þjónar verða kokkar og kokkar verða þjónar í eina kvöldstund

Þjónar verða kokkar og kokkar verða þjónar í eina kvöldstund

Í lok janúar mun veitingastaðurinn Múlaberg á Akureyri halda viðburð sem er líklega einsdæmi á Íslandi, og jafnvel víðar, þegar kokkar og þjónar staðarins munu skipta um hlutverk í eina kvöldstund. Viðburðurinn Flotið var fyrst haldin á síðasta ári og heppnaðist vel.

Mónika Sól Jóhannsdóttir, yfirþjónn Múlabergs, segir að það hafi ekkert endilega verið planið að halda viðburðinn aftur enda hafi starfsfólkið þurft smá tíma að jafna sig eftir síðasta skipti, en nú séu öll klár.

„Gjörsamlega galin pæling sem varð að veruleika – eitt kvöld sem var bæði stressandi, ótrúlega skemmtilegt og algjörlega ógleymanlegt. Við bjuggumst ekki við því að gestirnir væru eins spenntir fyrir þessu og við en vel yfir 100 manns mættu og færri komust að en vildu,“ segir Mónika.

„Hugmyndin snýst um að setja sig bókstaflega í spor hvers annars, brjóta upp hefðbundin hlutverk í veitingabransanum og skoða hvað gerist þegar allt fer á hvolf – í eitt kvöld. Það er ótrúlegt teymi á Múlabergi – kappsamt, metnaðarfullt og samheldið. Þetta er ekki sjálfgefið og alls ekki einfalt heldur áskorun sem við tökum að okkur af ástríðu fyrir faginu.“

Nánari upplýsingar um viðbuðinn má finna á Facebook og á heimasíðu Múlabergs.

COMMENTS