Dagur Gautason hefur skrifað undir eins og hálfs árs samning við KA. Félagið greindi frá þessu á heimasíðu sinni fyrr í dag. Í tilkynningu þeirri er Dagur boðinn „hjartanlega velkominn aftur heim,“ enda er hann uppalinn hjá KA: „[Við] hlökkum svo sannarlega til að sjá hann aftur í gula og bláa búningnum þegar boltinn fer aftur að rúlla í febrúar.“
Dagur er 25 ára vinstri hornamaður og er í 35 manna EM hópi íslenska landsliðsins. Dagur hefur áður leikið alls 89 leiki fyrir KA í deild og bikar, en hann byrjaði með meistaraflokki KA tímabilið 2017 til 2018. Undanfarin ár hefur hann spilað fyrir norska félagið ØIF Arendal og farið þar á kostum. Í frétt á heimasíðu KA má lesa nánar um feril Dags (Smella hér).
Í tilkynningu KA segir: „Það er gríðarlega sterkt að fá Dag aftur heim enda virkilega spennandi staða uppi hjá KA liðinu en strákarnir eru komnir í bikarúrslitahelgina auk þess að vera í toppbaráttu í Olísdeildinni. Ekki nóg með að fá einn besta vinstri hornamann landsins aftur heim að þá er Dagur grjótharður KA-maður sem gefur sig allan fyrir félagið rétt eins og öll hans fjölskylda. Bræður Dags eru báðir í eldlínunni með KA en Logi leikur einnig í vinstra horni í handboltanum á meðan Kári er öflugur bakvörður í fótboltanum. Þá er systirin hún Ásdís efnileg í fótboltanum hjá Þór/KA auk þess sem foreldrarnir þau Gauti og Hafdís eru ómissandi í starfinu í kringum KA.“



COMMENTS