Helgin var annasöm hjá lögreglu á Norðurlandi eystra en auk hefðbundinna verkefna stóð lögregla í tveimur stórum aðgerðum. Þetta kemur fram í tilkynningu á samfélagsmiðlum lögreglunnar.
Að morgni 15. janúar var tilkynnt um innbrot í byggingafyrirtæki á Akureyri. Þaðan hafði verið stolið sérhæfðum tölvubúnaði, lyklum af um tug ökutækja, vinnutækja og ýmsum verðmætum og hófst rannsókn þá þegar á málinu. Að kvöldi 16. janúar voru fjórir einstaklingar handteknir á Akureyri og einn á Raufarhöfn grunaðir um aðild að innbrotinu. Í framhaldi var farið í húsleitir á Raufarhöfn. Með aðgerðunum hafði lögregla uppi á þýfinu og er búið að koma því til skila til réttra eigenda. Rannsókn málsins er langt komin.
Að kvöld laugardags 17. janúar fór lögregla í aðgerðir á Akureyri í öðru máli í þeim tilgangi að hafa uppi á skotvopni sem grunur er um að notað hafi verið við hótanir. Húsleitir og handtökur fóru fram á fjórum stöðum. Sex einstaklingar voru handteknir og hald lagt á talsvert magn fíkniefna, fjármuni, eggvopn, skotvopn, skotfæri og meintan ávinning af brotastarfsemi. Rannsókn beinist nú að fjórum sakborningum en þar af eru tveir undir 18 ára aldri. Allir aðilar hafa verið látnir lausir og málið er í rannsókn.
Í tengslum við rannsókn málsins óskar lögregla eftir upplýsingum sem fólk kann að hafa um nýlegar hótanir með skotvopni.


COMMENTS