Síðastliðið mánudagskvöld, 19. janúar, var tilkynnt um innbrot á Akureyri. Skotvopnaskápur hafði verið brotinn upp í læstri geymslu í sameign og þaðan stolið sex skotvopnum. Þetta segir í tilkynningu frá Lögreglunni á Norðurlandi eystra.
Rannsókn málsins hófst undir eins. Mánudagskvöld og aðfaranótt þriðjudags voru þrír aðilar handteknir og húsleitir framkvæmdar á tveimur stöðum. Eitt skotvopn fannst snemma í ferlinu og hin fimm fundust um sólarhring síðar, þ.e.a.s. í gærkvöldi.
Hinir handteknu voru látnir lausir að yfirheyrslum loknum en málið er enn til rannsóknar.
Lögregla nýtti tilkynninguna til að brýna fyrir skotvopnaeigendum mikilvægi þess að tryggja vörslur skotvopna og vera vakandi fyrir hvers kyns öryggisbrestum.
Tvö skotvopnamál á þrem dögum
Málið sem um ræðir er annað málið tengt skotvopnum sem ratað hefur á borð Lögreglunnar á Norðurlandi eystra síðustu daga.
Lögreglan greindi frá því síðastliðinn mánudag að hún hafi farið í aðgerðir á Akureyri laugardagskvöldið 17. janúar til þess að hafa uppi á skotvopni sem grunur er um að hafi verið notað við hótanir. Í þeim aðgerðum fóru húsleitir og handtökur fram á fjórum stöðum. Sex einstaklingar voru handteknir og hald lagt á talsvert magn fíkniefna, fjármuni, eggvopn, skotvopn, skotfæri og meintan ávinning af brotastarfsemi. Rannsókn í því máli beinist nú að fjórum sakborningum en þar af eru tveir undir 18 ára aldri. Allir aðilar hafa verið látnir lausir og málið er í rannsókn.
Ekki liggur fyrir hvort nokkur tenging sé milli málanna tveggja.


COMMENTS