KEA og Kaldbakur stofna nýjan framtakssjóð

KEA og Kaldbakur stofna nýjan framtakssjóð

KEA svf. og Kaldbakur ehf. hafa gert samkomulag sín á milli um stofnun nýs framtakssjóðs, Landvættir slhf., sem starfræktur verður hjá AxUM Verðbréfum hf.

Þetta kemur fram í tilkynningu í dag þar sem segir að sjóðurinn muni fjárfesta í innlendum nýsköpunar- og vaxtarfyrirtækjum en verði þó með sérstaka áherslu á fyrirtæki sem hafa með höndum starfsemi á landsbyggðinni. Í upphafi munu Kaldbakur og KEA eiga jafnan hlut í sjóðnum.

Halldór Jóhannsson, framkvæmdastjóri KEA svf.:

„KEA hefur um árabil fjárfest beint og óbeint í nýsköpun og atvinnuuppbyggingu á starfssvæði sínu. Stofnun Landvætta slhf. og sameining Upphafs við það er eðlilegt framhald af þeirri stefnu og sameinar krafta okkar við Kaldbak og AxUM Verðbréf. Ég hef mikla trú á þessu verkefni og til verður aukinn slagkraftur til fjárfestinga á þessu sviði sem mun hafa jákvæð áhrif á fyrirtækjaflóru nærumhverfis okkar.“

Hjörvar Maronsson, fjárfestingarstjóri Kaldbaks ehf.:

„Kaldbakur hefur metnað til að taka virkan þátt í nýsköpunarverkefnum á landsbyggðinni með fjárfestingum sem byggja á arðsemi og ábyrgri nálgun. Með aðkomu okkar að Landvættum slhf. finnum við þessum metnaði okkar farveg. Það er von okkar að fleiri fjárfestar sláist í lið með okkur og að sjóðurinn verði virkur fjárfestir í arðsömum nýsköpunarverkefnum og leggi þannig sitt af mörkum til öflugrar atvinnuuppbyggingar á landsbyggðinni.“

Ítarlegri umfjöllun má finna á vef KEA með því að smella hér.

COMMENTS