Tónlistarmaðurinn Ágúst Þór Brynjarsson hefur gefið út lagið Hægðu á þér. Lagið er fyrsti síngullinn af væntanlegri plötu ágústar, Hjartað á milljón, sem kemur út þann 23. apríl næstkomandi.
Hægðu á þér fjallar um son Ágústar sem verður fjögurra ára 1. febrúar næstkomandi. Ágúst segir lagið endurspegla hvað foreldrar upplifa og hvað tíminn líði hratt með börnunum.
„Það er svo tryllt finnst mér að ég ég skuli eiga fjögurra ára barn og mig langar bara að hægja aðeins á öllu og fá að eiga hann sem litla strákinn minn aðeins lengur,“ segir Ágúst.
„Meðhöfundur minn, Hákon Guðni, og ég eigum báðir unga drengi, og við höfum upplifað það af eigin raun hversu hratt tíminn líður þegar maður á lítil börn. Þau vaxa svo ótrúlega hratt að maður finnur sig óska þess að hægt væri að hægja á tímanum og halda þeim litlum að eilífu. Við sömdum þetta lag saman við píanóið, og textinn kom mjög eðlilega því sagan er svo bókstafleg — hún endurspeglar ekki aðeins okkar eigið líf, heldur líka eitthvað algilt sem snertir alla sem eiga börn, hvort sem þau eru lítil að taka sín fyrstu skref, byrja í grunnskóla eða fá bílpróf, ég held að maður verði einhvern veginn aldrei tilbúinn í það.“
Hjartað á milljón verður 11 laga plata og kemur út sumardaginn fyrsta þann 23.apríl. Annað lag plötunnar er væntanlegt í lok febrúar og á því lagi fær Ágúst tónlistarkonuna Unu Torfa í lið með sér.
„Ég hlakka rosalega til að fá að gefa það lag út með henni. Í sumar ætla ég síðan að fara með bandinu mínu út um allt land að spila þessa plötu og verður tónleikaferðalagið auglýst síðar. Þetta verður gott ár,“ segir Ágúst að lokum.
Hlustaðu á Hægðu á þér:


COMMENTS