Stjórn fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna á Akureyri telur að ótækt sé að breyta aðferð við val á lista flokksins fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar. Þórhallur Jónsson, vara-bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins á Akureyri, gagnrýndi það sem hann telur vera trúnaðarbrest innan flokksins og skoraði á flokinn að „halda stefnu sinni og hefðum, fara í prófkjör og leyfa sjálfstæðisfólki á Akureyri að velja sér oddvita með lýðræðið í fyrirrúmi“ þegar hann tilkynnti framboð sitt til oddvita flokksins á Akureyri í gær.
„Það er álit stjórnar fulltrúaráðs að ótækt sé að breyta aðferð við val á lista flokksins fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar. Undirbúningur röðunar er í fullum gangi, frambjóðendur hafa stigið fram og tekið ákvarðanir út frá þeim reglum og því ferli sem var samþykkt á fulltrúaráðsfundi 2. desember síðastliðinn,“ segir í tilkynningu frá stjórn fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna á Akureyri.
Áður hafði Berglind Ósk Guðmundsdóttir gefið kost á sér í oddvitasætið og Heimir Örn Árnason í annað sætið. Þórhallur hafði áður tilkynnt framboð í 2. til 3. sæti í yfirlýsingu 10. janúar síðastliðinn.
Sjá einnig: Þórhallur vill leiða lista Sjálfstæðisflokksins á Akureyri
Hér að neðan má sjá tilkynninguna í heild
Stjórn fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna á Akureyri hefur borist erindi sem fjallað hefur verið um í fjölmiðlum og vill því koma eftirfarandi á framfæri:
Það er álit stjórnar fulltrúaráðs að ótækt sé að breyta aðferð við val á lista flokksins fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar.
Undirbúningur röðunar er í fullum gangi, frambjóðendur hafa stigið fram og tekið ákvarðanir út frá þeim reglum og því ferli sem var samþykkt á fulltrúaráðsfundi 2. desember sl.
Stjórn fulltrúaráðs telur að ákvörðun um að leggja til röðun hafi á sínum tíma verið tekin með hagsmuni flokksins að leiðarljósi. Hún byggði meðal annars á því að vera skynsamleg með tilliti til þess að fyrirkomulagið gefi þeim sem hyggjast gefa kost á sér áfram tækifæri til að endurnýja umboð sitt sem og að gefa nýjum aðilum tækifæri til að bjóða sig fram. Tillagan var ekki lögð fram með einstaka frambjóðendur í huga.
Tillaga stjórnar var borin upp á félagsfundi sem var löglega boðaður og var samþykkt með meira en 2/3 greiddra atkvæða.
Eftir að hafa rýnt ferlið ítarlega, aðdraganda ákvörðunar fulltrúaráðs og allt fram til dagsins í dag telur stjórn fulltrúaráðs að ekki hafi verið brotið með neinum hætti á rétti einstakra frambjóðenda. Lögð hafi verið áhersla á vönduð vinnubrögð og farið í einu og öllu eftir skipulagsreglum flokksins.
Forsendur um aðferð við val á lista hafa ekki breyst með þeim hætti að lögmæt sjónarmið kalli á aðra aðferð, bæði með tilliti til sanngirnissjónarmiða gagnvart frambjóðendum og tímaramma fram að kosningum.
Af framangreindum ástæðum stendur ákvörðun fulltrúaráðs um að viðhafa röðun við val í fjögur efstu sæti listans þar sem um 200 manns hafa atkvæðisrétt. Stjórn fulltrúaráðs er ákaflega stolt af því að Sjálfstæðisflokkurinn sé eina framboðið fyrir komandi kosningar á Akureyri sem býður jafn mörgum flokksmönnum að taka þátt í að velja forystufólk á framboðslista. Stjórnin bendir áhugasömum einstaklingum á að enn er hægt að gefa kost á sér í röðun, en framboðsfrestur rennur út föstudaginn 6. febrúar nk.
Stjórn fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna á Akureyri


COMMENTS