AMÍ verður ekki haldið á Akureyri í ár – Formaður Óðins stígur til hliðar

AMÍ verður ekki haldið á Akureyri í ár – Formaður Óðins stígur til hliðar

Aldursflokkameistaramót Íslands í sundi verður ekki haldið á Akureyri í ár. Í tilkynningu frá Sundsambandi Íslands (SSÍ) miðvikudaginn 6. maí sl. kom fram að AMÍ verður haldið af SH í Ásvallalaug í Hafnarfirði.

Ákvörðunin var tekin eftir samskipti formanns Sundfélagsins Óðins á Akureyri við SSÍ á mánudaginn 4. maí. Stjórn Sundfélagsins Óðins hafði rætt sín á milli ákveðnar áskoranir við framkvæmd mótsins á Akureyri vegna COVID-19 faraldursins. Áhyggjur formanns leiddu til þess að hann gaf mótið frá sér.

Sú ákvörðun var þó tekin án samráðs við aðra stjórnarmeðlimi sundfélagsins Óðins og AMÍ nefnd félagsins. Í kjölfarið steig formaðurinn til hliðar og hefur látið af öllum störfum fyrir Sundfélagið Óðinn.

„Þrátt fyrir að stjórn Óðins hæfi strax viðræður við bæði SSÍ og SH um að endurheimta mótið til Akureyrar tókst ekki að fá ákvörðuninni breytt. Þessi niðurstaða er gríðarleg vonbrigði fyrir sundfélagið Óðinn,“ segir í tilkynningu á vef sundfélagsins.

UMMÆLI

Sambíó