Síðastliðinn þriðjudag undirrituðu fulltrúar sveitarfélagsins Gimli í Kanada og Akureyrarbæjar viljayfirlýsingu um að styrkja vinabæjarsamband sveitarfélaganna. Haldinn var rafrænn fjarfundur sem stóð í um 30 mínútur og lauk með formlegri undirritun viljayfirlýsingarinnar. Fjallað er um málið á vef Akureyrarbæjar.
Vinabæjarsamband sveitarfélaganna er 50 ára um þessar mundir. Með yfirlýsingunni er styrkari stoðum rennt undir samstarf á sviði menningarmála, menntunar, sjálfbærrar ferðaþjónustu og nýsköpunar.
Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri, og Heimir Örn Árnason, formaður bæjarráðs, undirrituðu viljayfirlýsinguna fyrir hönd Akureyrarbæjar.
„Þessi samningur er grundvallaður á sameiginlegri sögu okkar og vísar einnig til vináttusambands komandi kynslóða,“ sagði Kevin Chudd, bæjarstjóri Gimli. „Við erum stolt af vinabæjarsambandi okkar við Akureyri og staðfestum hér með áframhaldandi og aukið samstarf á sviði samfélagsmála, menningar og nýsköpunar.“
„Það er heiður fyrir okkur á Akureyri að geta endurnýjað vináttusambandið við Gimli,“ sagði Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri. „Þessi samningur endurspeglar gagnkvæma virðingu og mikilvægi íslenskrar arfleifðar í Kanada. Við hlökkum til nýrra tækifæra í menningarskiptum og samstarfi á sviði sveitarstjórnarmála.“
Viljayfirlýsingin kveður á um samstarf á fjórum meginsviðum:
- Menningarleg samskipti og varðveisla arfleifðar — samsýningar, varðveisla sögulegrar arfleifðar og tækifæri fyrir listamenn til að vinna í vinabænum.
- Menntamál — nemenda- og kennaraskipti, fjarkennsla og samvinna við gerð námskrár.
- Sjálfbær ferðaþjónusta og efnahagsþróun — ábyrg ferðaþjónusta og ný tækifæri fyrir smærri fyrirtæki.
- Nýsköpun í sveitarstjórnarmálum og stafrænt samstarf — opin gagnamiðlun, nútímavæðing þjónustu og stafrænt aðgengi.


COMMENTS