Akureyrarbær undirritar samninga við Íþróttafélagið Akur og ÍBAMynd/Akureyrarbær

Akureyrarbær undirritar samninga við Íþróttafélagið Akur og ÍBA

Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri Akureyrar, undirritaði þann 19. desember 2025, tvo mikilvæga samninga sem varða uppbyggingu og rekstur íþróttastarfs í sveitarfélaginu. Þetta kemur fram á vef Akureyrarbæjar. Annars vegar var um að ræða nýjan þjónustu- og rekstrarsamning við Íþróttafélagið Akur og hins vegar viðauka við samstarfssamning við Íþróttabandalag Akureyrar (ÍBA).

Nýr samningur við Íþróttafélagið Akur gildir til þriggja ára, frá 2026 til 2028. Markmið hans er að styðja við barna- og unglingastarf félagsins og tryggja rekstur bogfimiaðstöðu að Kaldbaksgötu 4. Félagið fær sérstakt framlag til að mæta kostnaði vegna hennar. Heildarframlag bæjarins til félagsins fyrir árið 2026 nemur rúmum 2,8 milljónum króna og sú upphæð skiptist í framlag vegna aðstöðu og framlag til faglegs starfs byggt á iðkendafjölda. Jón Heiðar Jónsson, formaður Akurs, undirritaði samninginn fyrir hönd félagsins.

Einnig var samstarfssamningur við ÍBA framlengdur út árið 2026. Viðaukinn kveður á um vísitöluhækkun á rekstrarframlagi skrifstofu bandalagsins en stefnt er að heildarendurskoðun samningsins í ágúst 2026. Jóna Jónsdóttir, formaður ÍBA, undirritaði fyrir hönd bandalagsins

COMMENTS