Á síðasta ári var 1.728 sinnum haft samband við 1717, Hjálparsíma Rauða krossins, vegna sjálfsvígshugsana sem er oftar en nokkru sinni áður. Árið 2024 voru slík samtöl 1.035 talsins og er aukningin milli ára því 67%. „Þrátt fyrir að hafa reglulega yfir árið tekið saman tölur um fjölda sjálfsvígssamtala sem berast 1717, og vera meðvituð um að samtölin hafa verið að þyngjast og verða alvarlegri, þá er okkur brugðið yfir heildarsamantekt ársins,“ segir Elfa Dögg S. Leifsdóttir, sálfræðingur og teymisstjóri heilbrigðisverkefna hjá Rauða krossinum.
„Við höfum séð ákveðinn stíganda í þessa átt í samtölunum undanfarin ár en það er eiginlega ekki hægt að orða það öðruvísi en að sprenging hafi nú orðið milli ára, bæði hvað varðar fjölda sjálfsvígssamtala en einnig í alvarleikanum,“ segir Sandra Björk Birgisdóttir, verkefnastjóri hjá Hjálparsímanum 1717. Í fyrra höfðu starfsmenn og sjálfboðaliðar sem svara í 1717 samband við Neyðarlínuna í 229 tilvikum. Þá var staðan metin þannig að viðkomandi væri að líkindum í lífshættu og þyrfti á bráðri aðstoð að halda.
Heildarfjöldi samtala árið 2025 var 20.233. Álíka margir hafa samband símleiðis og í gegnum netspjallið 1717.is. Ungt fólk er mun líklegra til að hafa samband um netspjall en þau sem eldri eru.
Sérþjálfað starfsfólk og sjálfboðaliðar
Hjálparsíminn 1717 er lágþröskulda þjónusta sem þýðir m.a. að þau sem hafa samband þurfa ekki að gefa upp persónuupplýsingar á borð við nafn eða aldur. Oft kemur aldur hins vegar fram í samtalinu og er þá skráður. Af samtölum á síðasta ári þar sem aldur var gefinn upp var 21 prósent frá einstaklingum yngri en 18 ára. Í 278 tilvikum sneru þau að sjálfsvígshugsunum og 103 sinnum er sjálfskaði skráður sem ástæða samtals. Ungt fólk á aldrinum 19-25 ára hafði 248 sinnum samband vegna sjálfsvígshugsana og 103 sinnum vegna sjálfskaða. Hafa ber í huga að stundum eru fleiri en ein ástæða fyrir hverju samtali.
Helsta ástæða samtala við börn undir 18 ára er almenn vanlíðan en oft nefna þau einnig ofbeldi, þar á meðal stafrænt, kvíða, sjálfsskaða og félagslega einangrun.
Starfsfólk og sjálfboðaliðar sem svara samtölum er berast Hjálparsímanum 1717 hafa hlotið sérstaka þjálfun í virkri hlustun og að veita sálrænan stuðning. Eðli samtala vegna sjálfshugsana er misjafnt. Þau geta verið allt frá því að viðkomandi sé með óljósar hugsanir í þá veru að hafa gert aðgerðaplan og jafnvel þegar skaðað sig.
Þjónusta Hjálparsíma Rauða krossins stendur öllum landsmönnum sem þurfa aðstoð til boða, allan sólarhringinn – allt árið um kring. Hlutfallslega berast fleiri alvarleg samtöl á nóttunni þegar mörg önnur úrræði eru lokuð. Yngra fólk hefur gjarnan samband á nóttunni og þá í gegnum netspjallið.
„Margir eiga engan að til að deila með áhyggjum sínum, kvíða eða vanlíðan,“ segir Elfa Dögg um mikilvægi Hjálparsímans. „Þá skiptir öllu að geta hringt eða sent skilaboð í fullum trúnaði og fengið samtal við manneskju sem mætir þér af virðingu og hlýju.“
Augljós og vaxandi þörf er fyrir Hjálparsímann 1717 og algjört lykilatriði að þjónustan sé í boði allan sólarhringinn.
Það er kostnaðarsamt að reka hjálparsíma sem er opinn öllum stundum. Með styrk frá heilbrigðis-, félags- og húsnæðismála- og barna- og menntamálaráðuneytinu í fyrra var hægt að tryggja áframhaldandi opnun 1717 á næturnar. Framlög Mannvina Rauða krossins, hinna dýrmætu styrktaraðila verkefna félagsins, skipta svo sköpum í því að halda þjónustu Hjálparsímans úti.
Hér getur þú gerst Mannvinur og létt þannig fólki sem þarf á aðstoð að halda lífið.
Skilaboð frá skjólstæðingum 1717:
· Var hrædd um að vera dæmd, svo reyndist ekki.
· Aðstoðin var mjög góð frá upphafi til enda. Ég var í neyð og var glöð að geta fengið yndisleg ráð hjá ykkur, takk!
· Takk fyrir að hlusta og ekki dæma. Ég mun ekki skaða mig eftir þetta.
· Takk fyrir að hjálpa mér.
· Takk fyrir hjálpina❤️
· Frábær ráðgjafi. Mjög þægilegt að tala við hann. Hjálpaði mér mjög mikið að koma mér upp úr minni holu og sjá að það er hægt að vera jákvæður.
· Mjög hlý manneskja og gott að tala við.
· Var mjög glöð að tala við einhvern ❤️
· Þetta gaf mér hugrekki til að tala við mömmu mína, takk fyrir.
1717 tölfræði 2025
Heildarsamtöl = 20.233
- Sjálfsvígssamtöl = 1728 (þar af 229 sem fóru til 112).(Sjálfsvígssamtöl fyrir allt árið 2024 voru 1035)
Aðrar ástæður samtala (ath fleiri en ein ástæða getur verið fyrir samtali):
- Ofbeldi = 1396
- Neysla = 1316
- Kvíði = 1863
- Þunglyndi = 864
- Vanlíðan = 3826
- Vanlíðan barna = 458
- Barnaverndarmál = 229
- Átröskun = 142
- Samskiptaörðugleikar = 1254
- Félagsleg einangrun = 1221
- Áfall = 681
- Sjálfsskaði = 577
- Geðröskun = 1073
Aldursskipting:
- 0-18 ára = 1309
- 19-25 ára = 900
- 26-35 ára = 898
- 36-50 ára = 744
- 51-66 ára = 1596
- 67 + ára = 853
- Ekki vitað = 13.933
Kyn:
- Kona = 8674
- Karl = 7978
- Kynsegin =67
- Ekki vitað = 3427
Hvenær dags er haft samband:
- Kl. 9-16 = 5461
- Kl. 16-20 = 4366
- Kl. 20-23 = 3917
- Kl. 23-9 = 6489
Eftir mánuðum:
- Janúar = 1438
- Febrúar = 1270
- Mars = 1442
- Apríl = 1291
- Maí = 1341
- Júní = 1160
- Júlí = 1148
- Ágúst = 1424
- September = 1316
- Október = 1368
- Nóvember = 1395
- Desember = 1522
Ástæður samtala fólks undir 18 ára:
Sjálfsvígshugsanir = 278
Sjálfsskaði = 161
Kvíði = 248
Vímuefnanotkun = 63
Ofbeldi = 331
Félagsleg einangrun = 63
Vanlíðan = 714
19-25 ára:
Sjálfsvígshugsanir = 248
Sjálfsskaði = 103
Kvíði = 202
Vímuefnanotkun = 64
Ofbeldi = 159
Félagsleg einangrun = 62
Vanlíðan =443


COMMENTS