„Alltaf einstök upplifun að skemmta á Græna Hattinum“Mynd: LitzGautz

„Alltaf einstök upplifun að skemmta á Græna Hattinum“

Þær Auðbjörg Ólafsdóttir og Sóley Kristjánsdóttir mæta norður á Græna Hattinn með uppistandssýninguna Konur þurfa bara… þann 27. nóvember næstkomandi. Sýningin hefur verið á fjölunum í Tjarnarbíó í allt haust og fengið frábærar viðtökur.

Þær Auðbjörg og Sóley byrjuðu báðar í uppistandi á síðasta ári í tilefni af miðaldraafmælum sínum. Sóley varð 46 ára í ágúst á síðasta ári og ákvað að láta drauminn rætast með sinni fyrstu uppistandssýningu í Tjarnarbíó, þar sem hún bauð vinum sínum. Auðbjörg fylgdi á eftir í desember þegar hún varð 45 ára og hélt sína fyrstu uppistandssýningu í Ægi í Hafnarfirði.

„Á þeim tíma þekktust við ekki – og vissum ekki hvor af annarri né af þessum  draumi sem við báðar létum verða að veruleika með fjögurra mánaða millibili! Sameiginleg vinkona kynnti okkur síðar, við fengum okkur kaffi… og síðan höfum við í raun ekki stoppað,“ segja þær í samtali við Kaffið.is.

„Af hverju fórum við ekki bara á gönguskíði?“ var fyrsta sameiginlega sýning Sóleyar og Auðbjargar. Sýningin var sýnd víða um land, meðal annars á Græna Hattinum, þar sem þær lýsa stemningunni sem hreint ógleymanlegri.

„Í framhaldinu skrifuðum við saman nýtt efni, „Konur þurfa bara…“, með aðstoð Dóru Jóhannsdóttur, sem hefur verið kómískur dramatúrg sýningarinnar. Nú erum við farnar að sýna sýninguna úti á landi – nýlega í Valhöll á Eskifirði – og næst tökum við Græna Hattinn aftur, með nýtt efni og jólalegt yfirbragð. Við vorum alveg ákveðnar í að koma aftur því síðast var stemningin þar svo einstök,“ segja þær í spjalli við Kaffið.is.

„Við hlökkum mikið til að koma norður, rölta um miðbæinn, fá okkur gott kaffi, jafnvel kíkja í Skógarböðin eða sund, en mest hlökkum við til að hitta fólkið á Akureyri, hlæja saman og hafa gaman. Það er alltaf einstök upplifun að skemmta á Græna Hattinum – Haukur tekur svo vel á móti öllum, og það er auðvitað bara einn Græni Hatturinn.“

COMMENTS