Appelsínugul viðvörun á aðfangadagLjósmynd: Veðurstofa Íslands

Appelsínugul viðvörun á aðfangadag

Veðurstofa Íslands hefur gefið út bæði gular og appelsínugular veðurviðvaranir víðsvegar um land fyrir næstu daga. Um er að ræða sunnan storm sem samkvæmt spám mun skella á landinu seinnipartinn á Þorláksmessu og ekki ganga niður fyrr en um miðjan dag á jóladag.

Á Norðurlandi eystra tekur gul veðurviðvörun gildi klukkan 20:00 á Þorláksmessu, en appelsínugul viðvörun á aðfangadag frá klukkan 09:00 til 16:00. Önnur gul viðvörun verður svo í gildi frá klukkan 16 til miðnættis. Eftirfarandi er veðurlýsing fyrir Norðurland eystra á aðfangadag:

Sunnan 18-28 m/s, hvassast vestantil á svæðinu, vindhviður geta farið yfir 40 m/s við fjöll. Hættulegt að ferðast vegna vinds, sérílagi fyrir ökutæki sem eru viðkvæm fyrir vindi. Lausamunir eru líklegir til að fjúka og staðbundið foktjón mögulegt.

Svipuðu veðri er spáð á Norðurlandi vestra, fyrir utan það að á Þorláksmessu á talsverð úrkoma að fylgja þar, sem ekki er spáð á Norðurlandi eystra. Á aðfangadag spáir heldur þurru veðri en miklu roki á Norðurlandi öllu.

Allar líkur á rauðum jólum

Líkt og algengt er í sunnan stormum að vetri til þá munu umtalsverð hlýindi fylgja storminum og því allar líkur á rauðum jólum. Veðurstofan spáir því að 11 stiga hiti verði á Akureyri þegar jólin ganga í garð klukkan 18:00 á aðfangadag.

Lögreglan varar við samgöngutruflunum

Lögreglan á Norðurlandi eystra setti færslu á Facebook síðu sína í dag sem sjá má í heild sinni hér fyrir neðan. Þar segir að stormurinn muni að öllum líkindum valda samgöngutruflunum á svæðinu, bæði á flugsamgöngum og umferð á jörðu niðri. Það á sérstaklega við á Tröllaskaga og á Eyjafjarðarsvæðinu. Fólk er hvatt til þess að huga vel að ferðum sínum og fylgjast vel með stöðu mála á heimasíðum Veðurstofunnar og Vegagerðarinnar. Þá er fólki einnig bent á að huga vel að frágangi lausamuna. Loks er byggingarverktökum bent á að huga vel að frágangi á sínum byggingasvæðum.

COMMENTS