Arna Sif snúin aftur eftir krossbandsslit og barnsburð

Arna Sif snúin aftur eftir krossbandsslit og barnsburð

Akureyringurinn Arna Sif Ásgrímsdóttir sneri aftur á knattspyrnuvöllinn í gær þegar hún spilaði fyrir Val gegn FH í leik sem lauk 1-1. 720 dagar hafa liðið síðan hún lék síðast deildarleik með Val og 589 dagar síðan hún lék síðast meistaraflokksleik með Val.

Arna var að spila sinn fyrsta leik í deildinni frá því í október árið 2023 en hún hefur verið frá keppni vegna meiðsla og barnsburðar. Arna hefur verið á bekknum hjá Val í undanförnum leikjum en ekki komið við sögu. Í gær var hún sett beint í byrjunarliðið.

Hún var einn allra besti leikmaður Vals fyrir fjarveruna og var til að mynda valin besti leikmaður deildarinnar tímabilið 2022. Arna hefur alls leikið 268 leiki í efstu deild fyrir Val og Þór/KA og skorað í þeim 46 mörk. Þá hefur hún skorað eitt mark í 19 A-landsleikjum.

Arna sagðist vera ótrúlega stolt af sjálfri sér í viðtali við Fótbolti.net eftir leikinn í gær.

„Þetta er búið að vera ótrúlegt í rauninni. Ég er bara ótrúlega stolt af sjálfri mér í dag. Það er eitt að koma til baka eftir erfið meiðsli en svo að ganga með og fæða barn. Þetta er búið að ganga vel og illa og allt þar á milli í rauninni. Að vera komin hingað í dag gerir mig bara stolta en þetta er bara eitt skref og það er ennþá hellings vinna eftir og það heldur bara áfram. Ég ætla samt að leyfa mér að vera bara mjög ánægð með mig í dag og svo höldum við bara áfram á morgun,“ sagði Arna við Fótbolti.net en þar má finna lengra viðtal við Örnu.

Sjáðu viðtal við Örnu á Fótbolti.net

COMMENTS