Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri Akureyrar, var gestur í Bítinu á Bylgjunni í morgun þar sem að hún ræddi um borgarstefnu og hverju hún skiptir fyrir Akureyrarbæ. Ásthildur segir það skipta máli fyrir þjónustu og verkefni bæjarins að Akureyri verði skilgreind sem borg og að með því verði hlutverk Akureyrar gagnvart nágrenninu skýrara.
Hún bendir á að á Akureyri sé rekið sérgreinasjúkrahús og alþjóðlegur flugvöllur, og að borgarstaða gæti styrkt þessa innviði og gert svæðið aðlaðandi fyrir fleiri íbúa. Með breytingunni mætti einig efla Háskólann á Akureyri.
Ásthildur leggur áherslu á að markmiðið sé að efla kjarna landsbyggðarinnar. Hún segir mikilvægt að byggja upp öflugar stofnanir utan höfuðborgarsvæðisins til að halda uppi byggð um allt land. Sterkt atvinnulíf sé forsenda góðrar þjónustu og þar með lifandi íþrótta- og menningarlífs.
Sjá einnig: Borgarstefna samþykkt á Alþingi – Akureyri skilgreind sem svæðisborg
„Ég held það skipti máli fyrir alla landsbyggðina að við séum með öflugan kjarna annars staðar en á sunnanverðu landinu,“ segir Ásthildur.
Hægt er að hlusta á Ásthildi í Bítinu á vef Vísis með því að smella hér.


COMMENTS