Atli Sigurjónsson kominn heim í Þór

Atli Sigurjónsson kominn heim í Þór

Knattspyrnumaðurinn Atli Sigurjónsson hefur gert tveggja ára samning við Þór á Akureyri og mun því snýa aftur heim til Akureyrar og í Þorpið eftir farsælan feril með KR í Reykjavík.

Atli sem er fæddur árið 1991 er uppalinn hjá Þór og byrjaði að spila með meistaraflokki liðsins aðeins 16 ára gamall. Árið 2010 var hann kosinn Íþróttamaður Þórs þegar liðið tryggði sér sæti í efstu deild Íslands. Hann lék með liðinu í efstu deild 2011 en var svo seldur til KR.

Atli átti svo langan og farsælan feril með KR. Hann varð Íslandsmeistari 2013 og 2019 og bikarmeistari 2012 og 2014. Atli lék 340 leiki með KR yfir 12 keppnistímabil og skoraði alls 60 mörk. Hann yfirgefur félagið sem fimmti leikjahæsti leikmaður KR frá upphafi. Atli lék einnig tvö tímabil með Breiðablik í efstu deild, 2015 og 2016, og kom í stutta lánsdvöl til Þórs sumarið 2017.

Atli mun spila með Þórsurum í Bestu deildinni á næsta tímabili en liðið vann Lengjudeildina í sumar og tryggði sér sæti í efstu deild eftir 12 ára fjarveru.

COMMENTS