Fyrsta plata hljómsveitarinnar The Cheap Cuts frá Akureyri er komin út. Platan heitir Are You There? og inniheldur 8 lög. Þeir Finnur Salvar Geirsson og Elmar Atli Arinbjarnarson skipa hljómsveitina The Cheap Cuts. Þeir eru báðir Akureyringar en þeir kynntust í hljóðtækninámi í Stúdíó Sýrland í Reykjavík.
Finnur og Elmar segja í samtali við Kaffið að sameiginlegur áhugi þeirra á tónlist hafi leitt þá saman og að þeir sjái tónlistina sem leið til að fá útrás.
„Af einhverri ástæðu gátum við merkilega auðveldlega samið tónlist saman. Við eigum báðir mjög mismunandi tónlistarferla að baki, en við fundum einhverja samleið í rokkinu,“ segir Elmar.
Finnur og Elmar byrjuðu að semja tónlist saman í náminu í Reykjavík en það var ekki fyrr en eftir að náminu lauk og þeir voru fluttir aftur heim til Akureyrar þar sem þeir áttuðu sig á því að þeir ættu að vinna meira saman.
„Það var eitthvað sem kallaði á okkur. Við bara urðum að halda áfram að bralla eitthvað. Þannig í mars 2024, þá hófst þetta verkefni formlega. Við áttum fyrst að heita Rústir, og unnum með það nafn í smá tíma, flakkandi á milli nokkurra herbergja þar sem við gátum útbúið stúdíó til þess að taka upp nokkur demo. Okkur gékk alveg ótrúlega vel – Það virtist vera þannig að í hvert skipti sem við hittumst, þá varð lag til. Það þurfti sjaldan meira en eitt session til þess að búa eitthvað til.Í desember 2024 þá litum við yfir demo möppuna okkar og þar blöstu við okkur um 40 lög eða laga-hugmyndir. Guð minn. Hvað nú? Hvert er heitið? Eftir jól, í janúar 2025, tókum við ákvörðun. Við þurfum að gera eitthvað með allt þetta stöff. Við völdum 10 lög, sem síðan urðu 8, og stefndum á að fullvinna þau að okkar bestu getu, gefa út, og verða að hljómsveit,“ segir Elmar.
Finnur og Elmar eru stórhuga eftir fyrstu plötuútgáfu The Cheap Cuts og þeir eru vongóðir um að rokkið sé á uppleið í íslenskri tónlist.
„Við erum bara tveir gaurar sem dreymir um að verða rokkstjörnur og voru pissed [e. reiðir] út í allt. Nú er bara planið að æfa, æfa og æfa. Svo förum við að finna okkur gigg. Okkur langar að spila útum allt, bæði hér á Íslandi og erlendis.“
„Þegar við gerðum plötuna vorum við svolítið þreyttir og þungir svo við gátum leitt þá orku í lögin, bara tveir dúddar. Nú þegar lögin eru kominn erum við að púsla saman hljómsveit, sem er heldur óhefðbundið. Tónlistargerðin gerði okkur kleift að tjá okkur og koma hugsunum okkar í ákveðið form. Inn á milli eru samt lög sem snerta á hrifningu og þrá og mannlegum tengslum, ekki einungis myrkur,“ segir Finnur.

Dalvíkingurinn Dagur Atlason spilar á trommur á plötunni og Finnur og Elmar sáu um rest. Þórður Indriði Björnsson hannaði plötuumslag plötunnar.
Eins og þeir nefna fóru þeir í það verkefni að púsla saman hljómsveit eftir gerð plötunnar og nú hefur Jóel Örn Óskarsson gengið til liðs við The Cheap Cuts sem gítarleikari og Trausti Jónsson sem bassaleikari. Finnur er söngvari sveitarinnar og Elmar spilar einnig á gítar. Þá mun Dagur halda áfram sem trommuleikari.
Hlustaðu á plötuna Are You There? í spilaranum hér að neðan


COMMENTS