Teymi Drift EA á Akureyri heimsótti nýverið nýsköpunarsetrið Sting í Stokkhólmi, þar sem haldnir voru einstaklega gagnlegir og hvetjandi vinnudagar þar sem markmiðið var að dýpka skilning á sænska nýsköpunarumhverfinu og efla tengsl við lykilaðila í greininni. Þetta kemur fram í tilkynningu Drift EA á Facebook.
Sting, sem hefur í yfir tvo áratugi verið burðarás í sænsku nýsköpunarkerfi, tók á móti hópnum með einstaklega vel skipulagðri dagskrá. Þar var m.a. farið yfir hvernig slíkt vistkerfi er byggt upp og þróað, mikilvægi skýrra ferla og stuðningur við sprotafyrirtæki með markvissri þjálfun og tengslamyndun.
Í heimsókninni kom skýrt fram hversu mikið íslensk nýsköpunarumhverfi getur lært af samstarfi við reyndari aðila eins og Sting og SISP, samtök sænskra vísindagarða og viðskiptahraðla. Þar var áhersla lögð á m.a. mikilvægi teymisþróunar, stuðning við frumkvöðla og samvinnu opinberra aðila og fjárfesta. Einnig var rætt um möguleg tækifæri Driftar EA til að nýta sér alþjóðleg námsúrræði og taka þátt í norrænu samstarfi.
„Ferðin var afar lærdómsrík og veitti teyminu öllu fjölda hagnýtra ráða og hugmynda sem nýtast við frekari uppbyggingu og þróun hjá okkur. Við sáum líka að við erum nú þegar á góðri leið þó svo að við séum bara rétt að byrja,” segir Sesselja Ingibjörg Barðdal Reynisdottir, framkvæmdastýra Drift EA.
„Heimsókn Driftar EA til Stokkhólms undirstrikar mikilvægi alþjóðlegs samstarfs og lærdóms af öflugum vistkerfum nýsköpunar. Með auknu samstarfi við aðila á borð við Sting er unnt að stíga enn stærri skref í þá átt að efla frumkvöðlastarfsemi og sprotaumhverfi á svæðinu,“ segir í tilkynningu Drift EA.


COMMENTS