DriftEA – Miðstöð frumkvöðla og nýsköpunar á Akureyri fagnaði eins árs starfsafmæli í síðustu viku í Messanum í húsnæði Driftar við Ráðhústorg. Viðburðurinn var fyrst og fremst haldinn til að þakka þeim fjölmörgu bakhjörlum sem hafa stutt við starfsemina á fyrsta árinu.
Að þessu tilefni fóru Sesselja Ingibjörg Barðdal Reynisdóttir framkvæmdastjóri Driftar og Kristján Þór Júlíussons stjórnarformaður yfir árangur fyrsta starfsársins: „Fyrsta starfsárið hefur sannarlega verið erilsamt og við erum stolt af því að starfsemin hefur skilað bæði góðri fjármögnun til frumkvöðlaverkefna og öflugri uppbyggingu ásamt mikilli þátttöku frá öllu landinu,” segir Sesselja.
Starfsemi Driftar hefur á þessum stuttum tíma fest sig í sessi sem öflugur vettvangur fyrir frumkvöðla, nýsköpun og tengingu við atvinnulíf á svæðinu.
Árið í tölum
Á árinu sóttu 5.350 manns viðburði og kynningar á vegum Driftar og 106 hópar komu í heimsókn og fengu kynningu á starfseminni. 62 einstaklingar og teymi nýttu sér Áttavitasamtöl Driftar til að fá ráðgjöf um fyrstu skrefin í nýsköpun. Jafnframt hefur DriftEA stuðlað að öflugu samtali við atvinnulífið og haldið 38 stöðufundi og átta vinnustofur.
Sesselja segir árangurinn fyrst og fremst byggjast á öflugum bakhjörlum og samvinnu: „Án þessa öfluga stuðnings væri slíkur árangur ekki mögulegur. Við erum afar þakklát og hlökkum til að halda áfram að byggja upp gott stuðningsumhverfi.”
Leið frumkvöðla inn í vaxtar- og fjárfestingarprógrammið Hlunninn liggur í gegnum Slipptökuna. Þar fá frumkvöðlar fjórar hnitmiðaðar vinnustofur með ráðgjöfum og sérfræðingum. Að þeim loknum kynna frumkvöðlarnir verkefnin sín. Á fyrsta starfsárinu var lagt í tvær slíkar Slipptökur en alls sóttu 55 verkefni um þátttöku. 25 teymi fengu aðgang inn í prógrammið og síðan voru sjö teymi valin í Hlunninn. Þar að auki voru valin fimm verkefni sem studd eru til vaxtar. Í Hlunninum fá þessi verkefni aðgang að fjármagni, ráðgjöf, þjálfun og aðstöðu í allt að eitt ár.
Eftirtektarverður fjárhagslegur árangur
Frumkvöðlaverkefni tengd DriftEA hafa á starfsárinu tryggt 130,6 milljónir króna fjármögnun. Styrkirnir koma meðal annars frá Tækniþróunarsjóði, Kríu, Loftlagssjóði, Íslandsbanka og SSNE. Að auki fjárfesti DriftEA 42 milljónum króna í verkefnum innan Hlunnins.
„Þessi árangur sýnir þann mikla kraft sem býr í frumkvöðlasamfélaginu á Norðurlandi. Það er lykilatriði að vettvangur eins og DriftEA geti veitt sprotum bæði faglegan stuðning og fjármagn til að hefja raunverulegan vöxt,” segir Kristján Þór Júlíusson, stjórnarformaður Driftar.
Starfsemi Driftar hefur einnig haft áþreifanleg áhrif á atvinnulífið og samfélagið með 13 störf tengd fyrirtækjum í Hlunninum og 3,5 stöðugildum hjá DriftEA .
Næstu skref
Samhliða Slipptökunni og Hlunninum hóf DriftEA á árinu einnig tilraunaverkefni með stuðningi SSNE að fyrirmynd Ignite Nordic, umfangsmiklu norrænu samstarfsverkefni sem miðar að því að tengja frumkvöðla beint við þarfir atvinnulífsins. Tíu rótgróin fyrirtæki á Norðurlandi tóku þátt í verkefninu sem DriftEA mun framvegis leiða á landsvísu.
„Markmiðið er að frumkvöðlar fái tækifæri til að prófa sínar lausnir í raunverulegu umhverfi og eignist jafnframt sinn fyrsta viðskiptavin. Þau fyrirtæki sem taka þátt í Kveikjunni munu fá aðgang að frumkvöðlum á Norðurlöndunum og í tilraunaverkefninu var auðséð hversu mikill hafsjór af lausnum liggur þarna úti”, sagði Sesselja sem einnig hefur leitt þarfagreiningarfundi Kveikunnar.


COMMENTS