„Ég hafði litlar væntingar aðrar en að ég myndi kannski læra að fylla út skattaskýrsluna mína betur“

„Ég hafði litlar væntingar aðrar en að ég myndi kannski læra að fylla út skattaskýrsluna mína betur“

Það eru ekki allir sem geta státað af því að hafa starfað sem bruggmeistari, matreiðslunemi á einum þekktasta veitingastað landsins og köfunarleiðsögumaður áður en þeir fundu sig óvænt í heimi bókhaldsins. Viðmælandi Kaffisins er Halldór Darri Guðjónsson sem hefur fylgt forvitninni á ótroðnar slóðir, allt frá eldhúsinu á Sjávarkjallaranum til hákarlamiða á Maldíveyjum.

Uppvaxtarárin

Fæddur og uppalinn á Akureyri, þá gekk Halldór í Glerárskóla og spilaði fótbolta með Þór. Hann hafði áhuga á matargerð og flutti 17 ára gamall suður árið 2009 til að hefja nám sem matreiðslunemi á hinum gamalkunna Sjávarkjallara. „Sjávarkjallarinn fór á hausinn og á meðan ég beið eftir samning annarsstaðar fór ég aftur norður í VMA til að klára stúdentinn.“

Eftir smá umhugsun var kokkanámið lagt á hilluna og stefnan tekin á háskóla, nánar tiltekið í  efnaverkfræði. Líkt og með matreiðsluna var Halldóri ekki ætlað að klára það nám. „Ég hætti í efnaverkfræði þegar ég átti fjóra áfanga eftir,“ segir hann og hlær.

Bruggið

Það var þó á háskólaárunum sem nýtt áhugamál kviknaði. „Ég byrjaði að brugga bjór inni í kompu á Stúdentagörðunum, bæði vegna gífurlegs skorts á fjármagni til að kaupa bjór á þessum tíma og mér fannst efnafræðin á bakvið bruggunina, frá meskingu og til flöskuþroskunar, mjög áhugaverð.“

Þessi áhugi átti eftir að breytast í atvinnu. Eftir að hafa menntað sig í bruggtækni við Siebel Institute of Technology í Bandaríkjunum hóf hann störf hjá Ölgerðinni sem bruggmeistari. „Mitt helsta starf var að vinna með vörumerkið Borg Brugghús, að þróa nýja bjóra og viðhalda gæðum á þeim eldri. Það var bara stuð, ég var þar í sex ár.“

En hvernig fer maður úr því að vera bruggmeistari yfir í bókhald? 

„Ég skráði mig í grunnnámskeið í bókhaldi bara til gamans og til að nýta fræðslustyrkinn hjá Eflingu. Ég hafði litlar væntingar aðrar en að ég myndi kannski læra að fylla út skattaskýrsluna mína betur,“ útskýrir hann. „En þetta var svo bara stuð og ég fór í framhaldsnámskeið.“

„Fljótlega fór boltinn að rúlla og allt í einu var ég farinn að bóka eitt fyrirtæki fyrir einn einstakling, hann fékk mig svo til að bóka önnur fyrirtæki í hans eigu og ég var allt í einu bara orðinn bókari.“

Halldór stofnaði síðan bókhaldsstofuna Acumen og vegnar þar vel. Starfið hentar honum einstaklega vel í dag, ekki síst vegna nýs fjölskyldumeðlims. „Vinnutíminn er nokkuð frjálslegur og ég get veitt hundinum næga athygli allan daginn. Ég á eins árs mini schnauzer tík sem heitir Aría og er með ofsakvíða, svo hún getur ekki verið skilin mikið eftir ein.“

Köfun og hákarlar 

Samhliða ólíkum störfum hefur Halldór mikinn áhuga á köfun. Hann tók fyrstu réttindin á Akureyri aðeins 17 ára gamall og tók sér síðar hálfs árs pásu frá öðru til þess að starfa við köfun á Tenerife. „Mig langaði mikið að verða köfunarkennari en fann strax að það hentar mér alls ekki, ég er langt frá því að vera nógu þolinmóður í það,“ segir hann kíminn. „En það var gaman að vera köfunarleiðsögumaður, að fara með fólk sem þegar kann að kafa að skoða skipsflök, litla hella og fallega fiska.“

Í dag fer hann árlega í köfunarferðir með hópi frá gamla vinnustaðnum, Paradise Divers, á Tenerife. „Síðustu tvö ár höfum við farið til Maldíveyja og erum að fara aftur í febrúar. Við erum ekki ennþá búin að sjá hvalháf né tígrisháf svo við förum bara aftur þangað til það gerist.“

Leitin heldur því áfram og næsta ferð lofar góðu. „Við erum að fara á syðstu eyjarnar sem eru í miðju Indlandshafi. Þar eru miklir straumar og því miklu fleiri hákarlar. Einn staðurinn heitir Tiger Zoo, því það er svo mikið af tígrisháfum þar. Pínu ógnvekjandi en aðallega bara spennandi.“

Þegar hann er ekki að kafa í framandi höfum, sinna bókhaldi eða leika við Aríu, þá fer orkan í önnur áhugamál eins og fjallgöngur, tölvuleiki og langhlaup. Meðal annars hefur Halldór klárað 50 km ultra-hlaup á borð við Laugaveginn, Súlur og Hengil. Það er ljóst að hvort sem Halldór er á landi eða á sjó þá er ævintýraþráin aldrei langt undan.

Fyrir áhugasama er hægt að hafa samband við Halldór hjá Acumen HÉR.

COMMENTS