Einstök bók á Amtinu

Einstök bók á Amtinu

Grenndargralið heldur áfram að gera uppgötvanir í kjallara Amtsbókasafnsins á Akureyri. Skemmst er að minnast fundar um þarsíðustu jól þegar bók í eigu amtmanns á Möðruvöllum í Hörgárdal kom í leitirnar. Bókin var gjöf til Stefáns Thorarensen, gefin og árituð af höfundi hennar Rasmus Christian Rask sumarið 1814. Nýjasta uppgötvun Grenndargralsins er ekki síður áhugaverð. Í hillu innan um gamlar og snjáðar bækur rakst Gralið á bók sem við nánari athugun reyndist innihalda afar athyglisverða áritun svo ekki sé meira sagt. Bókin, sem eitt sinn var í eigu Fjölnismannsins Tómasar Sæmundssonar, var gjöf frá Joseph Paul Gaimard og árituð af honum á Breiðabólstað þann 2. júlí árið 1836. Ef marka má erlendar uppboðssíður er verðmæti bókarinnar talið í milljónum króna.

Ítarleg umfjöllun og myndir má nálgast á heimasíðu Grenndargralsins.

COMMENTS