Ellefu fyrirtæki sameinuðust í vikunni um að færa byggingadeild Verkmenntaskólans á Akureyri yfir 100 rafmagns- og handverkfæri að andvirði um 5 milljónum króna. Fulltrúar fyrirtækjanna afhentu deildinni gjöfina síðastliðinn fimmtudag. Greint er frá á vef skólans.
„Þessi stuðningur skiptir sköpum fyrir kennslu, öryggi og framtíð iðnnáms. Okkar innilegustu þakkir til allra sem komu að þessari frábæru gjöf,“ segir í tilkynningu VMA.
Benedikt Barðason skólameistari VMA segir á vef skólans að það sýni einstakan hlýhug til skólans þegar fyrirtæki sameinist um slíka gjöf og að það sé til marks um að atvinnulífið vilji standa vörð um námið í byggingadeild og leggja sitt af mörkum til þess að nemendur og kennarar hafi aðgang að fyrsta flokks tækjabúnaði til þess að mennta iðnaðarmenn framtíðarinnar.
Helgi Valur Harðarson brautarstjóri byggingadeildar segir ómetanlegt fyrir nemendur og kennara deildarinnar að njóta slíks velvilja og stuðnings úr atvinnulífinu. Þessi verkfæragjöf nýtist nemendum á öllum stigum náms í byggingadeild um ókomin ár og styrki öryggi, þjálfun og upplifun þeirra í námi.
Fyrirtækin sem standa sameiginlega að þessari gjöf eru:
Þór hf.
K.Þorsteinsson & Co
SS Byggir ehf.
Tréverk hf.
BB Byggingar ehf.
ÁK smíði ehf.
HeiðGuðByggir ehf.
Valsmíði ehf.
Böggur ehf.
B.E. húsbyggingar ehf.
Húsheild/Hyrna ehf.


COMMENTS