Í vikunni fór fram evrópskt áverkanámskeið (e. European Trauma Course/ETC). Endurlífgunarráð Íslands (EÍ) stendur fyrir innleiðingu slíkra námskeiða á Íslandi og var fyrsta námskeið landsins haldið á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Fjallað er um námskeiðið á vef Sjúkrahússins á Akureyri.
Markmið námskeiðsins er að veita þjálfun í samhæfðri móttöku og meðhöndlun alvarlegra slasaðra áverka sjúklinga, þar sem megináhersla er á teymisvinnu, samskipti, stjórnun og ákvarðanatöku. Auk æfinga í klínískum inngripum er 85% námskeiðsins byggt á verklegum tilfellaæfingum. Skipuleggjendur bæði frá ETC, EÍ og SAk voru hæstánægðir í lok námskeiðsins.
Tólf læknar og tíu hjúkrunarfræðingar tóku þátt í námskeiðinu en kennararnir voru níu talsins, sjö erlendir og tveir íslenskir leiðbeinendur í þjálfun. Markmiðið er að Ísland verði einn daginn sjálfbært með að halda slík námskeið í framtíðinni en það getur tekið nokkur ár. Þess má geta að allir kennarar sinna kennslunni launalaust, þó svo að greitt sé fyrir útlagðan kostnað.
Ferenc Sari, gjörgæslulæknir í Norður-Svíþjóð, var stjórnandi námskeiðsins. Ferenc lýsir dvöl sinni á Akureyri sem einstakri: „Starfsfólkið hér er hreinlega stórkostlegt og hermisetrið frábært. Þetta var hreinlega draumanámskeið – þátttakendur voru með mikla þekkingu og vel undirbúið og það var ekki síður mikilvægt að starfsfólk í stoðþjónustunni er framúrskarandi, ekki síst þau Jón G. Knutsen, Hrafnhildur Lilja Jónsdóttir og þeirra teymi.“


COMMENTS