Frá og með 1. janúar 2026 er áætlað að starfsemi endurhæfingardeildar á Kristnesi verði breytt í 5 daga deild ásamt dagdeild. Hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar og annað starfsfólk lyflækningadeildar Sjúkrahússins á Akureyri hafa lýst yfir áhyggjum í opnu bréfi sem birtist á Kaffið.is í morgun.
Sjá hér: Opið bréf til stjórnvalda, fyrir hönd lyflækningadeildar Sjúkrahússins á Akureyri
Nú þegar hefur um helmingi plássa verið lokað og starfshópurinn segist þegar finna fyrir auknu álagi vegna ákvörðunarinnar.
Í tilkynningu frá Sjúkrahúsinu á Akureyri í október kom fram að ákvörðunin hafi verið tekin sem liður í því markmiði að „veita gæðaþjónustu, á réttum stað og á réttum tíma, þeim hópum sem eru í mestri þörf fyrir sérhæfða þverfaglega endurhæfingu.“
Samhliða breytingunum verði unnið að því að styrkja endurhæfingarþjónustu á bráðadeildum sjúkrahússins ásamt því að setja á laggirnar öldrunarteymi lyflækninga sem hefur það hlutverk að styrkja þjónustu við aldraða á bráðadeildum sjúkrahússins.
Í opnu bréfi starfsfólks segir meðal annars að þeirra mat sé að fullnægjandi endurhæfing geti ekki átt sér stað inni á bráðalegudeild og að hópurinn finni þegar fyrir mikilli óánægju sjúklinga og aðstandenda.
„Í lengri tíma hefur starfsfólk deildarinnar viðrað áhyggjur sínar hvað þetta varðar. Unnið hefur verið að aukningu á mannafla og hagræðingu í starfi með tilliti til þessa og því skýtur þessi ákvörðun skökku við. Ljóst er að þetta mun auka enn frekar á fráflæðisvanda deildarinnar, hætt er við því að þetta skerði lífsgæði þeirra sem fá ekki fullnægjandi endurhæfingu sem og að öryggi bráðveikra sjúklinga gæti verið ógnað ef farið verður í að útskrifa of snemma vegna plássleysis,“ segir í opnu bréfi.
Tilkynning á vef Sjúkrahússins á Akureyri vegna fyrirhugaðra breytinga
Opið bréf til stjórnvalda, fyrir hönd lyflækningadeildar Sjúkrahússins á Akureyri


COMMENTS