Fjárfesting og vöxtur skila atNorth stórum samningum

Fjárfesting og vöxtur skila atNorth stórum samningum

Nýir samningar gagnaversfyrirtækisins atNorth við stóra erlenda viðskiptavini og grænn raforkusamningur við Landsvirkjun byggja á umfangsmikilli fjárfestingu í stækkun gagnavera fyrirtækisins á Íslandi síðustu ár.

atNorth lauk nýverið samningum við tvo stóra erlenda viðskiptavini um umtalsverða stækkun í gagnaverum fyrirtækisins á Íslandi. Annar þeirra varðar stækkun skýjaþjónustu Crusoe í gagnaveri atNorth í Reykjanesbæ, en það er með stærstu gagnaverum sinnar gerðar á Norðurlöndum. Áætluð fjárfesting tengd þessari stækkun nemur um 32 milljörðum króna og fellur að mestu leyti til árið 2026.

Þá hefur verið greint frá grænum raforkusamningi Landsvirkjunar og atNorth til fimm ára um kaup gagnaversins á Akureyri á 12 MW forgangsorku frá og með síðari hluta næsta árs.

„Gríðarlega aukin fjárfesting í vexti og uppbyggingu starfsemi atNorth á Íslandi, sér í lagi í Reykjanesbæ og á Akureyri, byggir á traustum langtímasamningum við öfluga viðskiptavini sem tryggja okkur stöðugan vöxt næstu ár. Fjöldi starfsmanna á Íslandi hefur einnig aukist verulega og eru þeir nú um 100 talsins. Við sjáum fyrir okkur vatnaskil á næsta ári þegar sú mikla fjárfesting í innviðum og mannauði sem ráðist hefur verið í fer að skila sér í arðbærum rekstri,“ segir Eyjólfur Magnús Kristinsson, forstjóri atNorth.

Í ársreikningi fyrir 2024 kemur fram að fjárfesting í varanlegum rekstrarfjármunum (CAPEX) hafi verið 192,4 milljónir dala, samanborið við 30,3 milljónir dala 2023, sem þýðir þreföldun á efnahagsreikningi félagsins. Upphæðin samsvarar tæplega 23,4 milljörðum króna samanborið við 3,7 milljarða króna árið áður. Áður hefur komið fram að áætluð heildarfjárfesting atNorth á Íslandi fyrir 2024-2025 verði um 41 milljarðar króna og má ætla að það verði nokkuð nærri lagi.

Vöxtur atNorth á Íslandi síðustu ár hefur falið í sér fjárfestingu í innviðum, mannauði og ferlum, sem tímabundið hefur haft áhrif á afkomu félagsins. Tap á rekstrinum jókst á milli ára og nam 11,5 milljónum dala árið 2024, samanborið við 6,3 milljónir dala árið áður. EBITDA fór úr 8,3 milljónum dala 2023 í 2,3 milljónir dala á síðasta ári.

Á yfirstandandi ári gerir atNorth ráð fyrir jákvæðri EBITDA afkomu og áframhaldandi rekstrarbata á næsta ári.

Alls rekur atNorth átta gagnaver á Norðurlöndum, en þar af eru þrjú á Íslandi, í Reykjanesbæ, Hafnarfirði og á Akureyri. Tvö til viðbótar eru svo í smíðum í Danmörku og Finnlandi. Starfsmenn atNorth eru rúmlega 200, þar af helmingurinn á Íslandi.

COMMENTS