Gæsluvarðhald yfir lögmanninum framlengt – Hann neitar sök

Gæsluvarðhald yfir lögmanninum framlengt – Hann neitar sök

Héraðsdómur Norðurlands eystra framlengdi í gær gæsluvarðhald yfir lögmanni sem sakaður er um aðild að skipulagðri brotastarfsemi. Hann sætir því gæsluvarðhaldi í viku til viðbótar. Lögmaðurinn er tæplega fertugur og hefur stafað sem bæði verjandi og talsmaður umsækjenda um alþjóðlega vernd. Kaffið greindi frá málinu í gær en Lögreglan á Norðurlandi eystra handtók manninn þann 18. nóvember síðastliðinn. Hann er sakaður um að aðstoða útlendinga við að koma ólöglega til Íslands, sem og aðild að peningaþvætti og fíkniefnamisferli.

RÚV greindi frá því í gærkvöldi að lögreglan hafi farið suður og handtekið manninn þar, en hann býr hvorki né starfar í umdæmi Lögreglunnar á Norðurlandi eystra. Einnig segir að málið tengist umfangsmiklum aðgerðum embættisins í sumar þar sem húsleitir voru gerðar á Raufarhöfn, Höfuðborgarsvæðinu og víðar. Margir voru handteknir í þeim aðgerðum og voru fjórir þeirra handteknu í því máli sendir úr landi til Albaníu á dögunum.

Baldvin Már Kristjánsson, verjandi lögmannsins, segir í samtali við RÚV að maðurinn neiti alfarið sök. Úrskurður Héraðsdóms um framlengt gæsluvarðhald hefur verið kærður til Landsréttar og upprunalegi úrskurðurinn um gæsluvarðhald fyrir viku síðan var það líka.

COMMENTS