Gerður Ósk Hjaltadóttir er Manneskja ársins samkvæmt lesendum Kaffið.is. Gerður Ósk hefur á árinu verið áberandi í baráttu sinni fyrir ungmenni sem finnst þau ekki tilheyra í samfélaginu.
Hún missti elsta son sinn á árinu og stofnaði þróunarverkefnið Hjaltastaði til heiðurs honum. Úrræði fyrir fólk 18 ára og eldri, sem stendur höllum fæti og hefur ekki náð að fóta sig í lífinu.
Í viðtali sem við munum birta hér á Kaffið.is á morgun, nýársdag, segist Gerður vera meyr og full þakklætis. Hún segir að þetta sýni að Akureyringum sé umhugað um nærumhverfi sitt og krakkana sem hér búa og að viðurkenningin muni hvetja hana áfram í baráttu sinni að byggja upp Hjaltastaði.
Í öðru sæti í kosningu Kaffið.is varð Eiki Helgason sem var tilnefndur fyrir starf sitt fyrir jaðaríþróttir á Akureyri og að gefa ungmennum vettvang. Í þriðja sæti varð Sigrún Steinarsdóttir sem sér um Matargjafir Akureyrar og nágrennis.


COMMENTS