Glerárkirkja

Glerárkirkja

Hildur Eir Bolladóttir skrifar

Ekkert okkar er ómissandi í starfi. Ég fann einmitt svo sterkt þegar ég var lengi frá vegna veikinda hvað það er mikill sannleikur að maður kemur í manns stað því allt gekk smurt og vel þrátt fyrir fjarveru mína. Það var í raun mikil frelsun að uppgötva þetta á eigin skinni þó ég hafi vitað þetta í huganum en auðvitað langað til að vera fjári mikilvæg. Einhvern tíma færir maður sig úr stað og þá mun kristni ekki leggjast af á Akureyri. Mér finnst stórkostlegt að fylgjast með ferskleika og krafti kollega minna í Glerárkirkju og ég finn að það dreifir álaginu á presta bæjarins sem er mikil breyting frá því sem áður var og mikið lán fyrir okkur öll. Við erum líka farin að vinna miklu meira saman og bera saman bækur okkar. Glerárkirkja er að sinna hlutverki hverfiskirkju og bjóða upp á öflugt barnastarf þar sem bæði húsnæðið og lega kirkjunnar gerir það að verkum að auðveldara er að hafa stundir þar sem kannski virka ekki hér í Akureyrarkirkju á meðan Akureyrarkirkja er með annað sem henni tekst svo ágætlega að sinna. Hér er auðvitað öflugt barnastarf og kórastarf en við erum til dæmis með Foreldramorgnana okkar út í Glerárkirkju því aðgengi með barnavagna er betra þar og húsnæðið ungbarnavænna.

Organistar, kirkjuverðir og æskulýðsstarfsmenn eru ráðnir af sóknarnefnd en ekki prestar, við erum starfsmenn Biskupsstofu. Sóknarnefnd tekur ákvörðun um starfshlutfall eftir því sem efnahagur kirkjunnar leyfir og breyttar áherslur í safnaðarstarfi eiga sér stað. Það er ekkert óeðlilegt við slíkar breytingar. Mér leiðist að fylgjast með umræðunni um Glerárkirkju þessa dagana, loksins er þarna teymi tveggja presta og djákna sem nenna að hlusta eftir þörfum og kalla fólk til kirkju og það er gróska og vöxtur og mér finnst að samfélagið eigi líka að tjá sig um það, lyfta upp því sem er jákvætt og gott. Þau hafa engar forsendur til að tjá sig opinberlega um starfsmannamál, af virðingu við alla sem að málinu koma og það veit auðvitað allt lífsreynt edrú fólk, ekki satt?

COMMENTS