Spila- og smávöruverslunin Goblin hefur lokað verslun sinni á Glerártorgi. Í tilkynningu frá Goblin segir að breyttar rekstraraðstæður, áskoranir á markaði og aukin erlend samkeppni í vöruframboði birgja hafi haft sitt að segja þó ákvörðunin sé fyrst og fremst persónuleg.
„Þetta hefur verið ótrúlegt ferðalag sem hófst af hugsjón og ástríðu fyrir því að skapa lifandi og skapandi spilasamfélag hér norðan heiða. Upphaflega var Goblin hugsað sem vefverslun með lager á Akureyri og einstaka viðburði. Ákallið um verslun og spilasal kom fljótt í ljós – og við tókum áskoruninni. Slík aðstaða krefst mikillar vinnu og viðveru og eftir mörg ár af ástríðudrifnu starfi er nú kominn tími til að einfalda starfsemina og stíga skref aftur að upphafinu,“ segir í tilkynningu Goblin.
Vefverslun Goblin verður þó áfram opin og Goblin mun halda áfram að styðja kjarnaviðskiptavini og spilahópa með skipulögðum viðburðum. Þá munu valáfangar Goblin fyrir skóla halda áfram.
Síðasti opnunardagur Goblin á Glerártorgi verður á föstudaginn, 15. ágúst og fram að því verður allt að 70 prósent afsláttur af öllum vörum.