Göngugötunni lokað á morgun

Göngugötunni lokað á morgun

Á morgun þann 1. maí mun göngugötunni loka eftir að bæjarstjórn samþykkti 18. mars sl. að henni yrði lokað frá 1. maí til 30. september, eða í fimm mánuði. Þetta er umtalsvert lengri lokun en var síðasta sumar en þá var lokað í þrjá mánuði frá 3. júní til ágústloka. Þetta kemur fram á vef Akureyrarbæjar þar sem einnig segir:

Í netkönnun sem Rannsóknarmiðstöð Háskólans á Akureyri gerði fyrir Akureyrarbæ í kjölfar lokunarinnar í fyrra, kom fram að ríflega 76% svarenda voru ánægð með hana og því bendir flest til þess að drjúgum meirihluta bæjarbúa falli lokun miðbæjarins fyrir umferð vélknúinna ökutækja vel í geð.

Göngugatan verður lokuð fyrir umferð vélknúinna ökutækja alla daga, allan sólarhringinn, frá og með fimmtudeginum 1. maí og út september. Opið verður fyrir ökutæki með aðföng til rekstraraðila frá kl. 7-10 alla daga. Aðgengi fyrir P-merkta bíla og ökutæki viðbragðsaðila verður ávallt tryggt.

Vakin skal athygli á því að föstudaginn 2. maí hefjast framkvæmdir við endurgerð á göngugötunni. Verkið verður unnið í áföngum og leitast við að haga því þannig að það valdi rekstraraðilum og þeim sem eiga leið um götuna sem minnstum óþægindum.

COMMENTS